Milli mála - 01.06.2014, Side 19
AUÐUR HAUKSDÓTTIR
Milli mála 6/2014
22
danskan mann, Birch að nafni, en sá „hafði verið fenginn til lands-
ins til að byggja vindmyllu þá, sem lengi stóð í Þingholtum skammt
frá Bakarastígnum (Bankastræti). Eitthvað töluðum við saman, þótt
ég ekki kynni að tala dönsku þá og skildi málið varla, er talað var (á
bækur og rit var ég allt öðruvísi)“.19
Vafalítið hafa þeir sem bjuggu í Reykjavík og á öðrum stöðum
þar sem reyndi á samskipti við Dani orðið betri í dönsku en þeir,
sem ekki komust í snertingu við málið. Þó ber að varast að taka of
djúpt í árinni eða draga of víðtækar ályktanir af áhrifum slíkra sam-
skipta á dönskukunnáttu Reykvíkinga almennt. Vafalítið hefur
menntun, staða og stétt ráðið miklu um eðli og umfang samskipt-
anna. Því til stuðnings má nefna frásögn Ágústs Jósefssonar, sem
var fæddur árið 1874 og ólst upp í Reykjavík frá 6 ára aldri. Hann
lærði prentiðn hjá Birni Jónssyni ritstjóra og var meðal þeirra fjöl-
mörgu ungmenna, sem fóru utan um aldamótin 1900 til að auka
menntun og reynslu í starfsgrein sinni. Um dönskukunnáttu sína
segir hann:
Áður en ég fór að heiman var dönskukunnátta mín mjög í molum, en gat
þó skilið og gert mig skiljanlegan í nauðsynlegustu samskiptum við Dani.
Þegar til Hafnar kom varð ég vegna atvinnu minnar að leggja mikla rækt
við að læra dönsku og framburð málsins til hlýtar [sic]. Þetta var all erfitt í
fyrstu, en samt tókst mér hvorttveggja svo að vel dugði á tiltölulega
skömmum tíma.20
Þetta sýnir, hve mikill munur er á því að geta bjargað sér á dönsku í
þekktum aðstæðum og að geta notað hana til alhliða samskipta við
Dani í leik og starfi. Dæmið er einnig til vitnis um að kunnátta í tal-
máli var mikilvæg fleirum en þeim sem fóru utan í háskólanám.
Eftir því sem líður á nítjándu öldina virðast æ fleiri hafa getað
lesið sér til gagns og gamans á dönsku. Fyrir því liggja nokkrar
ástæður. Um aldamótin nítján hundruð varð gríðarleg aukning á út-
gáfu alls kyns prentaðs efnis á dönsku í Danmörku, m.a. kennslu-
efnis, fagurbókmennta, fræðirita, tímarita og annars fjölmiðlaefnis,
19 Sama rit, bls. 111.
20 Ágúst Jósefsson, Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur, 1959,
bls. 137.