Milli mála - 01.06.2014, Page 25
AUÐUR HAUKSDÓTTIR
Milli mála 6/2014
28
Þorsteinn Erlingsson var menntaður maður, stúdent frá Lærða skól-
anum og hafði m.a. stundað nám í lögum og tungumálum í Höfn.
Þótt Þorsteini Erlingssyni hafi þótt eftirsóknarverðara að bjóða upp
á lærðari rit en mánaðarrit á borð við Tilskueren og Historisk Arkiv,
sem ætluð voru almenningi, og veigameiri skáldskap en þann sem
hann nefnir, er danski safnkosturinn engu að síður til vitnis um
áhuga Íslendinga á að lesa sér til gagns og ánægju á dönsku. Þó mik-
ill munur sé á töluðu og rituðu dönsku máli, hefur lestrarkunnátta
vafalítið stuðlað að orðaforðakunnáttu og auðveldað Íslendingum
að skilja og tala málið í aðstæðum þar sem reyndi á slík samskipti.
Rétt er þó að minna á að langt fram eftir öldinni voru íbúar í bæjum
hlutfallslega fáir, og þó Danir og dönsk menning hafi verið áberandi
á helstu verslunarstöðunum, átti einungis lítill hluti landsmanna í
miklum og stöðugum samskiptum við þá. Engu að síður gátu óbein
tengsl og þau tækifæri sem fólust í dönskukunnáttu hvatt til sjálfs-
náms í málinu eins og sjá má af lýsingu Kristínar Dalstedt (fædd
1876) á dönskunámi hennar og bróður hennar á bernskuheimili
þeirra skammt frá Þingeyri:
Ég las margar bækur þennan vetur og sá Ingibjartur bróðir mér fyrir nægu
lestrarefni. Hann var mjög bókelskur og fékk lánaðar bækur úti á Þingeyri.
Lagði hann sig mikið eftir að læra dönsku, og varð það til þess, að ég fór
einnig að fást við það. Höfðum við bæði áhuga á að geta talað sem bezt
við þá dönsku, er þeir kæmu til Þingeyrar næsta sumar. Ingibjartur hafði
þá þegar náð nokkurri æfingu í að tala norsku, þar sem hann hafði verið í
Framnesi, og nú hafði hann löngun til að komast í skiprúm á einhverjum
dönsku kútteranna á Þingeyri um sumarið. Sjálf hafði ég borið það við að
babbla dönsku sumarið áður. Okkur Ingibjarti varð allvel ágengt við
dönskunámið. Við vorum um flest mjög samhent, lásum saman og reynd-
um að ræðast við á dönsku, og varð það okkur hálfgerður leikur, sem
stuðlaði að því jafnframt, að okkur sóttist betur námið en annars hefði
orðið. Ekki höfðum við neinar kennslubækur, og var okkur það æði erfitt
að ráða fram úr, hvað orðin þýddu. Aðallega lásum við eina skáldsögu,
sem ég man ekki lengur hvað hét, en hún var eftir Victor Hugo. Við kom-
umst aldrei yfir að lesa hana alla, enda þótti okkur hún býsna torskilin á
köflum, svo mikið man ég.37
37 Hafliði Jónsson, Kristín Dahlstedt veitingakona : endurminningar, Reykjavík: Bókaútgáfan Muninn,
1961, bls. 56.