Milli mála - 01.06.2014, Qupperneq 28
UM DÖNSKUKUNNÁTTU ÍSLENDINGA Á NÍTJÁNDU ÖLD
Milli mála 6/2014
31
við Dani þó verið óhjákvæmileg, og kunnátta í málinu hefur vænt-
anlega smám saman aukist eftir því sem leið á dvölina. Að loknu
námi sneru stúdentarnir síðan heim og þar nutu aðrir kunnáttu
þeirra í dönsku, einkum þeirra sem lögðu fyrir sig kennslu í Lærða
skólanum eða á eigin vegum. Móðurmálsvæðingin í Danmörku
hafði þannig hvort tveggja í senn áhrif á dönskukunnáttu Íslend-
inga og viðhorf þeirra til eigin tungu. En hver voru tækifæri Íslend-
inga til dönskunáms í skólum hér á landi á nítjándu öld? Þegar
Bessastaðaskóli tók til starfa árið 1805, var auk hans einungis einn
barnaskóli, Hausastaðaskóli, starfræktur í landinu. Það segir þó ekki
alla söguna, því ekki var óalgengt framan af öldinni að latínuskóla-
nám væri stundað í heimaskóla hjá prestum, en það veitti þeim
heimild til að þreyta inntökupróf, examen artium, í Hafnarháskóla.42
Danska var kennslugrein í Bessastaðaskóla og kennd bæði í neðri
og efri bekk. En hvað fólst í dönskukennslu í byrjun nítjándu aldar?
Þegar svara á spurningu af þessum toga, er mikilvægt að átta sig á
því hvaða kenningar voru uppi um tungumálakennslu og tungu-
málanám á þessum tíma. Kenningar um aðferðir í tungumála-
kennslu hafa breyst mikið í tímans rás, en þær endurspegla þá þekk-
ingu sem menn búa yfir á hverjum tíma um eðli tungumála og
tungumálanáms. Kenningarnar hafa síðan áhrif á viðhorf til tungu-
mála, hlutverk þeirra og að hverju skuli stefnt með kennslunni.
Mikill munur er t.d. á kenningum fræðimanna um aðferðir í tungu-
málakennslu nú á dögum í samanburði við þær, sem voru efstar á
baugi í upphafi nítjándu aldar. Fornmálin voru þá í öndvegi í
evrópskum skólum, enda latína enn samskiptamál lærðra manna.
Þegar nýju málin fóru að ryðja sér til rúms á nítjándu öld varð mál-
fræði- og þýðingaraðferðin43 allsráðandi, en hún tók mið af þeirri
nálgun, sem hafði tíðkast í latínukennslunni.44 Eðli málsins sam-
42 Einar Laxness, Íslandssaga II, i-r, Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1998, bls. 127.
43 Jack C. Richards og Theodore S. Rodgers, Approaches and Methods in Language Teaching,
Cambridge: Cambridge University Press, 2001, bls. 5–7 og Auður Hauksdóttir, „Straumar og
stefnur í tungumálakennslu“, Mál málanna. Um nám og kennslu í erlendum tungumálum, ritstj.
Auður Hauksdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir, Reykjavík: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í
erlendum tungumálum, 2007, bls. 155–199.
44Auður Hauksdóttir, „Frá fornum málum til nýrra. Um kennslu erlendra tungumála á Íslandi í
sögulegu ljósi“, Milli mála 1/2009, bls. 11–53.