Milli mála - 01.06.2014, Page 134
LÍKKISTUSMIÐURINN
Milli mála 6/2014
143
Dyrnar opnuðust og maður sem strax mátti sjá að var þýskur
handverksmaður kom inn og gekk til líkkistusmiðsins glaðlegur á
svip.
– Afsakið, kæri nágranni, sagði hann á þessari rússnesku mál-
lýsku sem við enn í dag megum ekki heyra án þess að fara að hlæja,
– afsakið að ég skuli trufla yður … mig langaði bara til að heilsa
upp á yður sem fyrst. Ég er skósmiður og heiti Gottlieb Schultz og
bý hérna hinum megin við götuna í húsinu sem er beint á móti
gluggunum yðar. Á morgun ætla ég að halda upp á silfurbrúðkaupið
mitt og mig langaði að bjóða yður og dætrum yðar að koma og
borða með okkur, svona upp á kunningsskapinn.
Boðinu var vinsamlega tekið. Líkkistusmiðurinn bauð skó-
smiðnum að setjast og fá sér tebolla, og þar sem Gottlieb Schultz
var hispurslaus að eðlisfari voru þeir brátt farnir að rabba saman
eins og mestu mátar.
– Hvernig ganga viðskiptin, yðar náð? spurði Adrían.
– E-he-he, svaraði Schultz, – bara svona upp og niður. Ég get
svo sem ekki kvartað. En auðvitað er mín vara annars eðlis en þín:
lifandi maður kemst af án stígvéla en dauður maður getur ekki lifað
án líkkistu.
– Rétt er það, sagði Adrían, – og þó, ef lifandi maður á ekki
fyrir stígvélum þá, þér afsakið, gengur hann um berfættur en lík
betlarans fær sína kistu ókeypis. Þannig hélt samtalið áfram nokkra
stund; að lokum stóð skósmiðurinn upp og kvaddi líkkistusmiðinn
um leið og hann ítrekaði heimboðið.
Daginn eftir, á slaginu tólf, gengu líkkistusmiðurinn og dætur
hans út um hliðið við nýja húsið sitt og héldu af stað til nágrannans.
Ég ætla hvorki að lýsa rússnesku kápunni sem Adrían Prokhorov
klæddist né evrópskum klæðnaði Akúlínu og Dörju, og vík í því frá
þeim vana sem skáldsagnahöfundar nú til dags hafa tamið sér. Þó
tel ég engu ofgert í því að geta þess að stúlkurnar voru báðar með
gula hatta og í rauðum skóm sem þær klæddust aðeins við hátíðleg
tækifæri.
Þröng íbúð skósmiðsins var full af gestum sem flestir voru
þýskir handverksmenn ásamt konum sínum og lærlingum. Úr stétt
rússneskra embættismanna var aðeins einn varðmaður, Finninn
Júrko, sem þrátt fyrir að vera lágt settur hafði öðlast sérstaka hylli