Milli mála - 01.06.2014, Page 135
ALEXANDER PÚSHKÍN
Milli mála 6/2014
144
húsráðandans. Í tuttugu og fimm ár hafði hann gegnt stöðu sinni af
trúfestu og tryggð líkt og bréfberi Pogorelskís.5 Bruninn 1812 lagði
höfuðborgina fornu í rúst og þar með talið gula varðskýlið hans
Júrko. En um leið og óvininum hafði verið stökkt á flótta var reist
nýtt varðskýli þar sem hið gamla hafði verið, gráleitt með hvítum
súlum í dórískum stíl og Júrko fór að þramma þar fram og aftur á
ný með stríðsöxi og í grófum serk.6 Hann þekkti flesta Þjóðverjana sem
bjuggu nærri Níkítskí-hliðinu7; það kom meira að segja fyrir að ein-
hverjir þeirra þurftu að gista hjá honum frá sunnudegi og fram á
mánudag. Adrían kynnti sig strax fyrir honum því það var aldrei að
vita hvenær hann gæti þurft á aðstoð hans að halda og sátu þeir
saman þegar gestirnir voru sestir að borðum. Herra og frú Schultz
og sautján ára dóttir þeirra Lotchen, sem borðaði með gestunum,
báðu gestina að gjöra svo vel og hjálpuðu eldabuskunni að ganga
um beina. Ölið rann í stríðum straumum. Júrko át á við fjóra,
Adrían gaf honum ekkert eftir; dæturnar voru settlegri. Samræðurn-
ar, sem fóru fram á þýsku, urðu smám saman háværari. Allt í einu
bað húsráðandinn um orðið, dró tappa úr tjargaðri flösku og sagði
hátt á rússnesku:
– Skál fyrir minni kæru Lúísu!
Kampavínið freyddi. Húsbóndinn kyssti sinn fertuga lífsföru-
naut blíðlega á frísklegan vangann og gestirnir drukku háværir skál
hinnar góðu Lúísu.
– Skál fyrir mínum ágætu gestum! tilkynnti húsbóndinn og dró
tappann úr nýrri flösku, gestirnir þökkuðu honum fyrir með því að
tæma glösin á ný. Og nú tók hver skálin við af annarri. Skálað var
fyrir hverjum gesti fyrir sig, skálað var fyrir Moskvu og fullri tylft
þýskra bæja, skálað var fyrir öllum iðnaðarmannafélögunum svona
almennt og svo sérstaklega fyrir hverju og einu þeirra, það var
skálað fyrir meisturum og lærlingum. Adrían dró ekki af sér við
drykkjuna og var orðinn svo kátur að hann stakk meira að segja
5 Hér er vísað til sögunnar „Лафертовская маковница“, 1824, eftir Pogorelskí (dulnefni A. A.
Perovskís, 1787–1836).
6 Tilvitnun í ljóðið „Дура Похомовна“ eftir A. E. Ízmajlov (1779–1831).
7 Áður fyrr var þarna eitt af borgarhliðum Moskvu. Á þessum tíma voru hinir fornu
borgarveggir horfnir og heitið vísar því einungis til þess staðar sem telst vera upphaf
Níkítskaja-götunnar.