Milli mála - 01.06.2014, Side 137
ALEXANDER PÚSHKÍN
Milli mála 6/2014
146
Með þessum orðum fór líkkistusmiðurinn í rúmið og var farinn
að hrjóta innan skamms.
Það var enn dimmt í húsagarðinum þegar Adrían var vakinn.
Kaupmannsekkjan Trjúkhína hafði gefið upp öndina þá um nóttina
og ráðsmaður hennar sendi hraðboða ríðandi til Adríans með frétt-
irnar. Líkkistusmiðurinn lét hann hafa tíu kópeka fyrir vodka,
klæddi sig í flýti, fékk sér leiguvagn og hélt af stað til Razgúljaj.
Lögreglan var þegar mætt við hliðið og kaupmenn stikuðu þar fram
og aftur eins og hrafnar sem finna þef af hræi … Hin látna lá á
borðinu, gul eins og vax en var enn ekki farin að rotna. Í kringum
hana tróðust ættingjar, nágrannar og heimafólk. Allir gluggar stóðu
opnir, kveikt hafði verið á kertum og prestar lásu bænir. Adrían
sneri sér til frænda Trjúkhínu, sem var ungur kaupmaður í ný-
móðins frakka, og tilkynnti honum að líkkistuna, kertin, slæður og
annað sem þyrfti til útfararinnar fengi hann afhent nú þegar og allt í
góðu ásigkomulagi. Erfinginn þakkaði honum fyrir annars hugar og
sagðist ekki myndu prútta um verðið heldur treysta á heiðarleika
hans. Líkkistusmiðurinn sór og sárt við lagði, eins og hann var
vanur, að hann setti ekki meira upp en nauðsyn krefði, skiptist á
merkingarþrungnum augnagotum við ráðsmanninn og fór að koma
hlutunum í kring. Allan daginn var hann á þönum á milli Razgúljaj
og Níkítskí-hliðsins; um kvöldið var allt klappað og klárt og hann
lagði fótgangandi af stað heim á leið þar eð hann hafði látið
leiguvagninn fara. Nóttin var tunglskinsbjört. Líkkistusmiðurinn
komst slysalaust að Níkítskí-hliðinu. Við Upprisukirkjuna kallaði
kunningi okkar Júrko til hans, sá hafði borið kennsl á hann og bauð
honum góða nótt. Það var langt liðið á kvöldið. Líkkistusmiðurinn
var kominn heim að húsinu sínu þegar honum fannst allt í einu eins
og einhver kæmi að girðingunni, opnaði hliðið og færi í felur á bak
við það.
– Hvað er nú á seyði? hugsaði Adrían. – Hver gæti átt erindi við
mig núna? Eða, getur kannski verið að þetta sé þjófur sem ætlar
brjótast inn? Stelpubjánarnir eru þó ekki farnar að fá til sín elsk-
huga? Ja, það vantaði nú bara!
Og líkkistusmiðurinn var að því kominn að kalla til vinar síns
Júrko eftir hjálp. Á því augnabliki kom enn einhver að hliðinu og
gerði sig líklegan til að fara inn um það en þegar hann sá húsráð-