Milli mála - 01.06.2014, Page 143
SKOTIÐ
Milli mála 6/2014
153
bjóða sig fram. Samræðurnar snerust gjarnan um einvígi; Silvio
(eins og ég mun kalla hann) blandaði sér aldrei í þær. Ef hann var
spurður hvort hann hefði tekið þátt í einvígi, svaraði hann þurrlega
að það hefði hann gert en fór ekki nánar út í þá sálma og greinilegt
var að slíkar spurningar voru honum ekki að skapi. Við gerðum ráð
fyrir að hann hefði á samviskunni eitthvert ógæfusamt fórnarlamb
sinnar skelfilegu listar. Aldrei hvarflaði að okkur að gruna hann um
hugleysi af neinu tagi. Sumir menn eru þannig að útlitið eitt kemur í
veg fyrir slíkar grunsemdir. Óvænt atvik kom okkur öllum í upp-
nám.
Eitt sinn sátum við um það bil tíu liðsforingjar til borðs hjá
Silvio og drukkum eins og vant var, það er að segja mjög stíft. Eftir
matinn reyndum við að fá húsráðanda til að taka að sér bankann í
spili. Lengi vel baðst hann undan því, þar eð hann spilaði yfirleitt
aldrei, en á endanum lét hann þó sækja spil, henti fimmtíu gullpen-
ingum á borðið og fór að gefa. Við hópuðumst í kringum hann og
spilið hófst. Silvio var vanur að hafa algera þögn á meðan spilað var,
karpaði hvorki um leikreglur né ræddi spilamennskuna yfirleitt. Ef
spilamanni varð á að telja skakkt, þá ýmist borgaði Silvio strax út
mismuninn eða skráði niður skuld eftir atvikum. Við vissum þetta
og leyfðum honum að hafa þetta eftir eigin höfði, en í hópnum var
liðsforingi sem nýlega hafði verið fluttur til okkar. Hann tók þátt í
spilinu og tvöfaldaði veðmálsupphæðina í ógáti. Silvio tók krítina og
jafnaði reikningana á töflunni eins og hann var vanur. Liðsforinginn
hélt að Silvio hefði gert mistök og fór að malda í móinn. Silvio hélt
þegjandi áfram að gefa. Liðsforinginn missti þolinmæðina, þreif
töfluburstann og þurrkaði út það sem hann taldi að hefði verið
skrifað á hann að ósekju. Silvio tók krítina og leiðrétti stöðuna.
Liðsforinginn, sem var orðinn hreifur af víni, spilum og hlátri
félaganna, taldi sér gróflega misboðið, greip í bræði bronskerta-
stjaka af borðinu og fleygði í átt að Silvio sem rétt náði að víkja sér
undan. Það kom fát á okkur. Silvio stóð upp fölur af heift og augun
skutu gneistum þegar hann sagði:
– Náðugi herra, gjörið svo vel að fara héðan út og þakkið Guði
fyrir að þetta skuli hafa gerst heima hjá mér.
Við efuðumst ekki um eftirmálin og töldum hinn nýja félaga
okkar svo gott sem dauðan. Liðsforinginn hvarf á braut og sagðist