Milli mála - 01.06.2014, Page 145
SKOTIÐ
Milli mála 6/2014
155
frá þessu hitti ég hann aðeins ásamt félögum mínum og okkar opin-
skáu samtöl heyrðu sögunni til.
Önnum kafnir íbúar höfuðborgarinnar skilja ekki ýmsar þær
tilfinningar sem íbúar í smábæjum og til sveita þekkja svo vel; eins
og til dæmis eftirvæntinguna eftir póstdeginum; á þriðjudögum og
fimmtudögum var hersveitarskrifstofan okkar full af liðsforingjum:
Einhver átti von á peningum, annar bréfi, sá þriðji dagblöðum.
Pakkarnir voru yfirleitt opnaðir á staðnum, fréttir voru sagðar og
skrifstofan iðaði af lífi. Silvio fékk sín bréf send til hersveitarinnar
okkar og var því venjulega á staðnum. Einu sinni fékk hann send-
ingu sem hann reif innsiglið af með greinilegri óþreyju. Hann
renndi yfir bréfið og augun leiftruðu. Liðsforingjarnir voru allir
uppteknir af eigin bréfum og tóku ekki eftir neinu.
– Herrar mínir, sagði Silvio, – aðstæður krefjast þess að ég fari
héðan þegar í stað, ég fer í nótt. Ég vona að þið þiggið boð mitt um
að snæða með mér í síðasta sinn. Ég vænti þess að þér komið
einnig, hélt hann áfram og sneri sér að mér, – ég geri skilyrðislaust
ráð fyrir yður.
Með þessum orðum hraðaði hann sér á braut og við sammælt-
umst um að hittast hjá Silvio og fórum hver í sína áttina.
Ég kom til Silvio á tilsettum tíma og sá að næstum öll hersveitin
var mætt. Búið var að pakka saman öllum eigum hans, ekkert var
eftir nema berir sundurskotnir veggirnir. Við settumst til borðs;
húsbóndinn var í hinu besta skapi og kæti hans smitaði fljótt út frá
sér; tapparnir fuku hver af öðrum. Það klingdi án afláts í freyðandi
glösum og af hjartans einlægni óskuðum við ferðalangnum góðrar
ferðar og allra heilla. Það var orðið áliðið er við stóðum upp frá
borðum. Menn fundu húfur sínar, Silvio kvaddi hvern og einn en
tók um höndina á mér og stöðvaði mig þegar ég var um það bil að
fara út.
– Ég þarf að tala við yður, sagði hann lágt. Ég varð eftir.
Gestirnir fóru; við urðum tveir eftir, settumst andspænis hvor
öðrum og reyktum pípurnar þegjandi. Silvio var áhyggjufullur; það
vottaði ekki lengur fyrir krampakenndri kætinni. Drungalegur fölv-
inn, glansandi augun og þykkur reykurinn sem hann blés frá sér
léðu honum yfirbragð djöfulsins sjálfs. Nokkrar mínútur liðu og
Silvio rauf þögnina.