Milli mála - 01.06.2014, Page 146
ALEXANDER PÚSHKÍN
Milli mála 6/2014
156
– Það er ekki víst að við hittumst aftur, sagði hann við mig, –
áður en við skiljumst langar mig að segja yður dálítið. Þér hafið ef
til vill tekið eftir því að ég læt mig litlu varða álit annarra, en mér
þykir vænt um yður og mér þætti þungbært að skilja yður eftir með
rangar hugmyndir um mig.
Hann þagnaði og fór að slá úr kulnaðri pípunni; ég þagði og
horfði niður fyrir mig.
– Yður þótti skrýtið, hélt hann áfram, – að ég skyldi ekki gera
upp sakirnar við þennan drukkna vitleysing, R***. Þér hljótið að
taka undir að þar eð ég var í rétti til að velja vopnið, var líf hans í
mínum höndum og ég hafði svo að segja ekkert að óttast. Ég gæti
skrifað hófsemi mína á eigið göfuglyndi, en ég vil ekki fara með
ósannindi. Ef ég hefði getað refsað R*** án þess að leggja eigið líf í
minnstu hættu, þá hefði ég ekki undir nokkrum kringumstæðum
látið hann sleppa svo auðveldlega.
Ég horfði undrandi á Silvio. Játning af þessu tagi kom mér
algerlega í opna skjöldu. Silvio hélt áfram.
– Einmitt, ég hef ekki rétt til að leggja líf mitt í hættu. Fyrir sex
árum var mér rekinn löðrungur og óvinur minn lifir enn.
Forvitni mín var undir eins vakin.
– Börðust þér ekki við hann? spurði ég. – Aðstæðurnar hafa
væntanlega komið í veg fyrir það?
– Ég barðist við hann, svaraði Silvio, – og hér er minnismerki
um einvígi okkar.
Silvio stóð á fætur og tók rauða húfu með gullnum dúski og
borða (það sem frakkar kalla bonnet de police7) upp úr pappaöskju.
Hann setti húfuna upp; réttum þumlungi fyrir ofan derið var gat
eftir byssukúlu.
– Yður er kunnugt um, hélt Silvio áfram, – að ég var í þjónustu
*** húsarasveitarinnar. Þér þekkið skapgerð mína: ég er vanur því
að vera fremstur í flokki, það hefur verið ástríða mín frá barnæsku.
Á þessum tíma var ofstopi móðins: ég var aðalóeirðaseggurinn í
hernum. Við gortuðum af eigin drykkjuskap; ég drakk hinn fræga
Búrtsov undir borðið, þann sem Denís Davydov hefur lofsungið í
7 Lögregluhúfa. Hér er líklega átt við höfuðfat sem húsarar brúkuðu.