Milli mála - 01.06.2014, Page 148
ALEXANDER PÚSHKÍN
Milli mála 6/2014
158
að skjóta fyrst en illskan hafði náð svo sterkum tökum á mér að ég
gat ekki treyst því að höndin yrði stöðug og til að fá ráðrúm til að
róa mig niður, bauð ég honum að skjóta fyrst: andstæðingur minn
samþykkti það ekki. Ákveðið var að varpa hlutkesti og hann vann,
enda gæfan alltaf hans megin. Hann miðaði og hæfði húfuna mína.
Röðin var komin að mér. Líf hans var loks í mínum höndum; ég
horfði á hann af ákafa og reyndi að merkja þó ekki væri nema vott
af óróleika. Hann stóð andspænis byssunni, valdi þroskuðustu berin
úr derhúfunni og spýtti út úr sér steinunum sem flugu í áttina til
mín.9 Skeytingarleysi hans gerði mig æfan. Hvaða gagn hef ég af
því, hugsaði ég, að svipta hann lífinu ef hann metur það einskis?
Meinfýsinni hugmynd laust niður í huga mér. Ég sleppti byssunni.
– Þér virðist ekki mega vera að því að deyja núna, sagði ég við
hann, – þér kjósið að snæða morgunverð; ég vil ekki trufla yður.
– Þér truflið mig ekki hið minnsta, svaraði hann, – viljið þér
vera svo vænn að skjóta, eða, hafið það eins og þér viljið, þér eigið
skotið inni; ég verð ávallt til þjónustu reiðubúinn.
Ég sneri mér að einvígisvottunum og tilkynnti þeim að ég hefði
ekki í hyggju að skjóta í þetta sinn og þar með var einvíginu lokið.
Ég hvarf úr herþjónustu og flutti í þetta litla þorp. Allan þenn-
an tíma hefur ekki liðið sá dagur að ég hafi ekki hugsað um hefnd
og nú er stundin runnin upp.
Silvio tók úr vasa sínum bréfið sem hann hafði fengið um
morguninn og leyfði mér að lesa það. Einhver (líklega viðskiptaráð-
gjafi hans) hafði skrifað honum frá Moskvu og sagt að ákveðin
persóna myndi fljótlega ganga í hjónaband með ungri og fagurri
stúlku.
– Þér getið yður líklega til um, sagði Silvio, hver þessi ákveðna
persóna er. Ég er á leið til Moskvu. Við skulum sjá hvort hann verður
jafn kærulaus andspænis dauðanum rétt fyrir eigið brúðkaup eins og
þegar hann beið hans með munninn fullan af kirsuberjum.
Með þessum orðum stóð hann upp, fleygði hattinum á gólfið
og tók að ganga fram og aftur um herbergið eins og ljón í búri. Ég
9 Hér er um sjálfsævisögulega tilvísun að ræða. Þegar Púshkín var í útlegð í Kíshínjov mætti
hann liðsforingjanum Zúbov í einvígi og gæddi sér þá á kirsuberjum. Zúbov skaut, en missti
marks – Púshkín skaut ekki.