Milli mála - 01.06.2014, Side 152
ALEXANDER PÚSHKÍN
Milli mála 6/2014
162
– Já, hvort ég þekkti. Sagði hann yður nokkuð frá ... já, nei,
varla; sagði hann yður nokkuð frá afar sérkennilegu atviki …
– Ekki þó löðrungnum, yðar tign, sem einhver ónytjungur rak
honum á dansleik?
– Og sagði hann yður nokkuð hvað hann hét þessi ónytjungur?
– Nei, yðar tign. Það gerði hann ekki … Ó! yðar tign, hélt ég
áfram og gat mér til um hið rétta, – afsakið … ég vissi ekki … það
voruð þó ekki þér? …
– Ég sjálfur, svaraði greifinn, í greinilegu uppnámi, – og myndin
með skotunum er minnisvarði um síðasta fund okkar …
– Æ, elskan mín, sagði greifynjan, – í guðanna bænum vertu
ekki að segja frá þessu, mér finnst svo skelfilegt að hlusta á þetta.
– Jú, svaraði greifinn, – ég ætla að segja honum alla sólarsög-
una, honum er kunnugt um hvernig ég móðgaði vin hans, því skyldi
hann þá ekki fá að vita hvernig Silvio náði fram hefndum.
Greifinn dró fram stól fyrir mig og fullur áhuga hlýddi ég á
eftirfarandi frásögn.
„Ég kvæntist fyrir fimm árum. Fyrsta mánuðinum, the
honeymoon,11 eyddi ég hér í þorpinu. Þessu húsi á ég að þakka
mínar sælustu stundir en líka eitt skelfilegasta augnablik ævi minnar.
Eitt kvöldið fórum við í útreiðartúr; hestur konu minnar fældist
og hún varð hrædd, lét mig hafa tauminn og gekk heim, en ég reið á
undan. Fyrir framan húsið sá ég hestvagn og mér var sagt að á
skrifstofu minni biði mín maður sem ekki vildi segja til nafns, segð-
ist aðeins eiga við mig erindi. Ég gekk inn í þetta herbergi og í
myrkrinu sá ég mann, rykugan og órakaðan; hann stóð hérna við
arininn. Ég gekk til hans og reyndi að koma honum fyrir mig.
– Þekkir þú mig ekki, greifi? sagði hann titrandi röddu.
– Silvio! hrópaði ég og viðurkenni að ég fann hvernig hárin risu
á höfðinu á mér.
– Einmitt, hélt hann áfram, – ég á inni skot. Ég er kominn til að
hleypa af, ertu tilbúinn?
11 Í frumtexta er enska orðasambandið notað. Líkleg ástæða þess er að á tímum Púshkíns var
rússneska orðasambandið „медовый месяц“ („hunangsmánuðurinn“, sem er þýðing á enska
hugtakinu) ekki orðið jafn algengt og það er í seinni tíð.