Milli mála - 01.06.2014, Page 156
RÚNAR HELGI VIGNISSON
Milli mála 6/2014
166
Eftir Hawthorne liggja margar þekktar smásögur og hinar
kunnu kenningar Edgars Allans Poe um að smásögur ættu að hafa
einhlít áhrif (e. single effect) tóku m.a. mið af þeim. „Hinn ungi herra
Brown“ birtist upprunalega án höfundarnafns í tímaritinu New
England árið 1835 og síðar undir nafni í bókinni Mosses from an Old
Manse árið 1846. Hún er í hópi víðförulustu sagna Hawthornes og
telst sígild í bandarískum bókmenntum. Gríðarmikið hefur verið
ritað um hana og hina margræðu skógarferð hins unga Browns.
Lesendur hafa spunnið sig eftir ýmsum þráðum kristninnar og
grandskoðað táknmyndir sögunnar á þeim forsendum. Um miðja
20. öld taka við margslungnar sálfræðilegar útlistanir á sögunni.
Ferðin inn í skóginn verður þá að ferð inn í sjálfið. Í anda Freuds er
ferðalag Browns sagt vera kynferðislegt og jafnvel talað um að það
sé táknsaga um kynmök og lýsi í senn aðdráttarafli holdsins lysti-
semda og andúð á þeim. Síðar er farið að taka meira mið af Jung,
ferðin verður þá að leit, skógurinn að sameiginlegri undirvitund
púrítananna. Þar næst verður Brown að taugasjúklingi og geðsjúkl-
ingi eftir því hvaða hugtök eru hæstmóðins hverju sinni. Nýrýnin lét
líka til sín taka með áherslum sínum á sjónarhorn, myndmál og ekki
síst andstæður; þarna eru ljós og myrkur, borg og skógur, rautt og
svart. Fagurfræðilegar nálganir má að sjálfsögðu finna með útfarinni
greiningu á texta Hawthornes. Svo taka menningarfræðin við og
fjalla um hinar ýmsu hliðar sögunnar á þverfaglegan hátt, beita
afbyggingu, nýsöguhyggju og kynjafræði, svo eitthvað sé nefnt. Sög-
una virðist því mega lesa frá mörgum sjónarhornum og hver kyn-
slóð bætir við túlkunarsögu hennar. Skógur gagnrýninnar er orðinn
býsna þéttur og álíka vandratað um hann og um skóg Browns.2
2 Sjá nánar í bók Susan Lohafer, Reading for Storyness, Preclosure Theory, Empirical Poetics & Culture
in the Short Story. Baltimore og London: The Johns Hopkins University Press, 2003, bls. 6–20.