Milli mála - 01.06.2014, Page 158
NATHANIEL HAWTHORNE
Milli mála 6/2014
168
talar um drauma líka. Mér fannst ég sjá angur í svip hennar þegar
hún talaði, eins og hana hefði dreymt fyrir því verki sem unnið skal
í nótt. En nei, nei; tilhugsunin mundi ríða henni að fullu. Jæja, Guði
sé lof fyrir þennan yndislega engil hér á jörðu og að þessari nótt
liðinni skal ég hanga í pilsfaldi hennar og fylgja henni til himna.“
Með þennan góða ásetning að leiðarljósi fannst herra Brown
rétt að hraða enn frekar för sem farin var í svo illum tilgangi. Hann
hafði valið dimman veg, skyggðan af öllum hnípnustu trjánum í
skóginum sem vék einungis óverulega svo mjór stígurinn gæti
skriðið í gegn og lokaðist undireins að baki. Þetta var allt eins ein-
manalegt og hugsast gat; og það sérkennilega við slíka einveru er að
ferðalangurinn veit ekki hver kann að leynast við alla trjábolina og
gildu greinarnar uppi yfir; og því eins víst að einmanaleg fótspor
hans liggi um mannþröng sem ekki sést.
„Það kann að vera djöfullegur indíáni bak við hvert tré,“ sagði
herra Brown við sjálfan sig; og hann leit smeykur um öxl í sama bili
og hann bætti við: „Hvað ef djöfullinn sjálfur er við hliðina á mér!“
Sem hann horfði um öxl kom hann að beygju á veginum og
þegar hann leit fram fyrir sig á ný blasti við honum maður sem sat í
hátíðlegum og virðulegum klæðnaði undir gömlu tré. Hann reis á
fætur þegar herra Brown nálgaðist og gekk með honum áleiðis.
„Þú ert seinn, herra Brown,“ sagði hann. „Klukkan á Gömlu
Suðurkirkjunni sló þegar ég fór í gegnum Boston og síðan eru liðn-
ar heilar fimmtán mínútur.“
„Faith tafði mig svolítið,“ svaraði ungi maðurinn titrandi röddu,
sem stafaði af skyndilegri komu félagans, þó að hún væri ekki alls-
endis óvænt.
Það var orðið mjög rokkið í skóginum og dimmast í þeim hluta
sem þeir fóru nú um. Eftir því sem best varð séð var seinni ferða-
langurinn um fimmtugt, augsýnilega af sömu stigum og herra
Brown, og býsna áþekkur honum, en þó átti það kannski frekar við
um svipbrigði en útlit. Samt hefðu þeir getað verið faðir og sonur.
Og þó að eldri maðurinn væri klæddur á jafn látlausan hátt og sá
yngri, og væri jafn látlaus í hátt, hafði hann hið ólýsanlega yfirbragð
þess sem þekkir veröldina og hefði ekki farið hjá sér við
kvöldverðarborð ríkisstjórans eða við hirð Vilhjálms konungs, ef
vafstur hans hefði leitt hann þangað. En það eina við hann sem gat