Milli mála - 01.06.2014, Page 160
NATHANIEL HAWTHORNE
Milli mála 6/2014
170
vín með djáknum úr mörgum sóknum; margur borgarráðsmaðurinn
í hinum og þessum borgum hefur gert mig að fyrirsvarsmanni; og
meirihlutinn í héraðs- og hæstarétti fylgir mér dyggilega að málum.
Við ríkisstjórinn erum líka – En það er ríkisleyndarmál.“
„Getur það verið?“ hrópaði herra Brown og horfði forviða á
æðrulausan ferðafélagann. „Samt sem áður á ég ekkert erindi við
ríkisstjórann og bæjarstjórnina; þeir hafa sína hentisemi og leggja
ekki aumum bónda eins og mér lífsreglurnar. En ef ég held áfram
með þér, hvernig á ég þá að geta horfst í augu við þann gamla góða
mann, prestinn okkar í Salem? Ó, rödd hans fengi mig til þess að
skjálfa jafnt á hvíldardegi sem á predikunardegi.“
Fram að þessu hafði eldri ferðalangurinn hlustað alvarlegur í
bragði, eins og vera bar, en nú sprakk hann úr hlátri og hristist svo
ákaflega að engu var líkara en stafurinn iðaði af samlíðan.
„Ha! Ha! Ha!“ hrópaði hann aftur og aftur; svo stillti hann sig:
„Jæja, haltu áfram, herra Brown, haltu áfram; en ég bið þig, ekki
drepa mig úr hlátri.“
„Ja, í stuttu máli,“ sagði herra Brown fremur argur, „þá er það
konan mín, Faith. Hún yrði alveg eyðilögð, þessi elska; og þá vildi
ég heldur vera það sjálfur.“
„Ef það er tilfellið,“ svaraði hinn, „þá ættirðu að halda þína
leið, herra Brown. Ég vildi ekki fyrir tuttugu gamlar konur eins og
þá sem haltrar fyrir framan okkur að eitthvað kæmi fyrir Faith.“
Í sömu svifum benti hann með stafnum á konu á stígnum en
þar kannaðist herra Brown við afar guðrækna sómakonu sem
kenndi honum kristinfræði í æsku, og var enn ráðgjafi hans í sið-
ferðilegum og andlegum efnum, ásamt prestinum og Gookin
djákna.
„Merkilegt að Goody Cloyse skuli vera þetta langt úti í
óbyggðum við dagsetur,“ sagði hann. „En með þínu samþykki, vin-
ur, ætla ég að taka krók í gegnum skóginn þangað til við komumst
fram úr þessari kristnu konu. Þar sem hún þekkir þig ekki, gæti hún
spurt hver sé með mér og hvert förinni sé heitið.“
„Gott og vel,“ sagði samferðamaðurinn. „Farðu inn í skóginn
en ég held mig á stígnum.“
Ungi maðurinn gerði það, en gætti þess að missa ekki sjónar á
félaga sínum sem leið mjúklega eftir veginum uns hann var ekki