Milli mála - 01.06.2014, Side 161
HINN UNGI HERRA BROWN
Milli mála 6/2014
171
nema staflengd frá gömlu konunni. Hún hraðaði för sem mest hún
mátti, var ótrúlega fótfrá af þetta roskinni konu að vera, og tuldraði
einhver ógreinileg orð – bæn eflaust – á leiðinni. Ferðalangurinn
rétti fram stafinn og snerti skorpinn hálsinn með því sem virtist
vera hali nöðrunnar.
„Djöfullinn!“ veinaði þessi guðrækna gamla kona.
„Goody Cloyse þekkir þá sinn gamla vin?“ sagði ferðalangurinn
og virti hana fyrir sér þar sem hann hallaði sér fram á hlykkjóttan
stafinn.
„Ah, einmitt, og er það yðar tign?“ veinaði þessi ágæta kona.
„Já, ekki ber á öðru, og í mynd míns gamla vinar, herra Browns, afa
kjánans sem nú er uppi. En – mundi yðar tign trúa því? – kústskaft-
ið mitt er horfið með undarlegum hætti, mig grunar að óhengda
nornin hún Goody Cory hafi stolið því, og það þegar ég hafði öll
verið smurð með safa úr kvennafró og muru og freyjublómi“ –
„Að viðbættu fínu hveiti og fitu af nýfæddu barni,“ sagði
ímynd hins gamla herra Browns.
„Ah, yðar tign þekkir uppskriftina,“ veinaði sú gamla og
hneggjaði. „Eins og ég sagði, þar sem ég var tilbúin á fundinn, og
enginn hestur til reiðar, ákvað ég að ganga þetta; því mér er sagt að
vígja eigi góðan ungan mann í nótt. En ef yðar tign réttir mér nú
arminn verðum við komin þangað fyrr en varir.“
„Það held ég varla,“ svaraði vinur hennar. „Arminn geturðu
ekki fengið, Goody Cloyse; en hér er stafurinn minn, ef þú vilt
þiggja hann.“
Svo segjandi fleygði hann stafnum fyrir fætur hennar þar sem
hann kann að hafa öðlast líf því þetta var einn af þeim stöfum sem
eigandinn hafði áður lánað egypsku vitringunum. Þetta gat hinn
ungi herra Brown hins vegar ekki séð. Hann hafði kastað aftur
höfðinu í forundran og þegar hann leit niður á ný sá hann hvorki
Goody Cloyse né nöðrulega stafinn, heldur förunaut sinn einan þar
sem hann beið hans sallarólegur, eins og ekkert hefði í skorist.
„Þessi gamla kona kenndi mér kristinfræði,“ sagði ungi maður-
inn; og það var hafsjór af merkingu að baki þessari einföldu athuga-
semd.
Þeir héldu áfram göngunni á meðan eldri ferðalangurinn hvatti
félaga sinn til þess að ganga greitt og hvika hvergi og hagaði orðum