Milli mála - 01.06.2014, Side 162
NATHANIEL HAWTHORNE
Milli mála 6/2014
172
sínum svo hnyttilega að röksemdir hans virtust fremur spretta úr
brjósti áheyrandans en koma frá honum sjálfum. Á leiðinni greip
hann hlynviðargrein og hafði fyrir göngustaf og fór að hreinsa af
henni sprota og stilka sem kvölddöggin hafði vætt. Undireins og
fingur hans komu við þá, visnuðu þeir og skorpnuðu með undar-
legum hætti, eins og sólin hefði skinið á þá í viku. Þannig héldu
mennirnir tveir áfram, og höfðu býsna hratt á hæli, þangað til herra
Brown settist á trjástubb í dimmri laut á veginum og neitaði að fara
lengra.
„Vinur,“ sagði hann þvermóðskulega, „ég hef gert upp hug
minn. Ég fer ekki feti lengra. Hvað með það þótt vesæl kerling, sem
ég hélt að færi til himna, kjósi að fara til helvítis: Er það næg ástæða
til þess að ég segi skilið við mína elskulegu Faith og fari á eftir
henni?“
„Þú venst hugmyndinni smátt og smátt,“ sagði kunninginn með
hægð. „Sittu hérna og hvíldu þig svolitla stund; og þegar þú hugsar
þér til hreyfings á ný hefurðu stafinn minn að styðjast við.“
Að svo mæltu kastaði hann prikinu til félaga síns og hvarf svo
fljótt úr augsýn að engu var líkara en hann hefði horfið í æ svartara
myrkrið. Ungi maðurinn sat stundarkorn við veginn og hrósaði
sjálfum sér mjög og hugsaði með sér hvað hann yrði með hreina
samvisku þegar hann mætti prestinum á morgungöngu sinni, hrykki
ekki heldur undan augnaráði Gookins djákna, þess gamla góða
manns. Og hvað hann mundi nú sofa vel í nótt, í stað þess að helga
hana svo illum tilgangi, svo vært og rótt í örmum Faith! Mitt í
þessum ánægjulegu og lofsverðu hugleiðingum, heyrði herra Brown
hófatraðk á veginum og taldi ráðlegt að fela sig í skógarjaðrinum,
gerði sér fulla grein fyrir þeim vítaverða tilgangi sem hafði dregið
hann þangað þótt hann væri blessunarlega horfinn frá villu síns
vegar.
Hófatraðkið og raddir reiðmannanna færðust nær, tvær virðu-
legar raddir sem töluðu saman alvarlegar í bragði. Þessi blanda af
hljóðum virtist færast eftir veginum skammt frá felustað unga
mannsins; en hvorki ferðalangarnir né fákar þeirra voru sýnilegir,
eflaust sökum niðamyrkurs á þessum tiltekna stað. Þó að þeir
strykjust við litlu greinarnar í vegarkantinum var ekki að sjá að þeir
hefðu orðið varir við daufa skímuna frá björtu himinröndinni sem