Milli mála - 01.06.2014, Síða 163
HINN UNGI HERRA BROWN
Milli mála 6/2014
173
þeir hlutu að hafa gengið í gegnum. Herra Brown var ýmist í hnipri
eða tyllti sér á tá, dró greinarnar til hliðar og teygði álkuna eins langt
og hann þorði án þess að greina svo mikið sem skugga. Það ruglaði
hann þeim mun meira í ríminu vegna þess að hann hefði getað svar-
ið, ef slíkt væri í boði, að þetta voru raddir prestsins og Gookins
djákna þar sem þeir hossuðust áfram í rólegheitum, eins og þeir
gerðu þegar þeir voru á leið í vígsluathöfn eða á prestastefnu.
Meðan enn heyrðist til þeirra nam annar knapinn staðar til þess að
reyta písk.
„Af þessu tvennu, séra,“ sagði rödd sem líktist rödd djáknans,
„vildi ég frekar missa af vígslukvöldverði en fundinum í kvöld. Mér
er sagt að sumir úr félagsskap okkar komi frá Falmouth og lengra
að og aðrir frá Connecticut og Rhode Island, auk nokkurra galdra-
lækna úr röðum indíána sem vita á sína vísu næstum jafn mikið um
djöfulskap og okkar besta fólk. Þar að auki stendur til að vígja
fallega unga konu.“
„Ljómandi fyrirtak, Gookin djákni!“ svaraði gamli presturinn
hátíðlega. „Sláðu undir nára svo við verðum ekki seinir. Þú veist að
ekkert verður gert fyrr en ég mæti á staðinn.“
Aftur heyrðust hófaskellir; og raddirnar, sem ómuðu svo
skringilega um loftið, bárust um skóginn þar sem engin sóknarbörn
höfðu nokkurn tíma komið saman eða einsamall kristinn maður
lagst á bæn. Hvert gat för þessara helgu manna þá verið heitið svo
langt úti í hinum heiðnu óbyggðum? Hinn ungi herra Brown greip í
tré sér til stuðnings, var við það að lyppast niður, máttlaus og þjak-
aður af sínu sjúka hjarta. Hann leit til himins, vissi ekki hvort það
væri í raun og veru himinn yfir honum. Samt var blái boginn þarna
og stjörnurnar að lýsast á honum.
„Með himininn uppi yfir og Faith fyrir neðan mun ég áfram
standa keikur gegn djöflinum!“ hrópaði herra Brown.
Meðan hann horfði enn upp í djúpan himinbogann og hafði
lyft höndum í bæn, óð ský yfir háhvelfinguna, þótt ekki hreyfði
vind, og faldi stjörnurnar sem voru að lýsast. Blár himinninn var
enn sýnilegur, nema beint fyrir ofan, þar sem svarti skýjabakkinn
feyktist hraðbyri norður á bóginn. Um loftið fór ruglingslegur og
undarlegur kliður. Einu sinni þóttist heyrandinn greina mállýsku
sveitunga sinna, karla og kvenna, bæði guðrækinna og guðlausra, en