Milli mála - 01.06.2014, Side 164
NATHANIEL HAWTHORNE
Milli mála 6/2014
174
marga þeirra hafði hann hitt við altarisgöngu og til annarra hafði
hann séð í ýfingum á kránni. Í næstu andrá var hann ekki viss nema
þetta hefði einungis verið muldrið í gamla skóginum, hvísl án þess
að bærði vind, svo ógreinileg voru hljóðin. Síðan kom önnur bylgja
af þessum kunnuglegu tónum, sem heyrðust daglega í sólskininu í
Salem-þorpi, en ekki fyrr en nú úr næturskýi. Þarna var ein rödd,
ungrar konu sem fór með kveinstafi, samt af hvikulli depurð, og
bað einhvers greiða sem fengi henni hryggðar ef hann yrði gerður;
og allur hinn óséði fjöldi, jafnt syndugir sem syndlausir, virtist
hvetja hana áfram.
„Faith!“ æpti herra Brown fullur angistar og örvæntingar; og
bergmál skógarins hæddi hann með því að hrópa „Faith! Faith!“
eins og ringluð vesalmenni leituðu hennar um gervallar óbyggðirn-
ar.
Það gætti sorgar, reiði og skelfingar í öskrunum sem enn nístu
nóttina þar sem hinn óhamingjusami eiginmaður hélt niðri í sér
andanum og beið eftir svari. Það heyrðist öskur, sem drukknaði
undireins í háværara muldri og dúraði niður í fjarlægan hlátur í þann
mund sem dimmt skýið sópaðist burt og skildi eftir heiðan og
hljóðan himin fyrir ofan herra Brown. En eitthvað sveif léttilega að
ofan og kræktist í trjágrein. Ungi maðurinn greip það og sá að það
var bleikur borði.
„Hún Faith mín er farin!“ veinaði hann eftir að hafa verið sem
lamaður eitt andartak. „Það er ekkert gott á jörðu; og syndin er
orðið tómt. Komdu, djöfull; því að þér er þessi heimur gefinn.“
Og viti sínu fjær af örvæntingu, svo að hann hló hátt og lengi,
greip herra Brown stafinn sinn og lagði af stað á ný, fór svo greitt
að hann virtist fljúga eftir skógarstígnum fremur en ganga eða
hlaupa. Stígurinn varð grófari og drungalegri og verr mótaður og
hvarf að lokum svo hann var þarna mitt í þessum dimmu
óbyggðum, steðjaði enn áfram af eðlisávísun sem beinir dauðlegum
manni að hinu illa. Um allan skóg endurómuðu hræðileg hljóð –
brestir í trjám, spangól í villidýrum og öskur indíána; en stundum
glumdi í vindinum eins og í kirkjuklukku í fjarska og stundum
rumdi hann mikinn umhverfis ferðalanginn, eins og náttúran öll
kvæði við með hæðnishlátri. En hann var sjálfur aðalhryllingurinn á
svæðinu og hrökk ekki undan öðrum hryllingi.