Milli mála - 01.06.2014, Blaðsíða 165
HINN UNGI HERRA BROWN
Milli mála 6/2014
175
„Ha! Ha! Ha!“ öskraði herra Brown þegar vindurinn hló að
honum. „Við skulum sjá hver hlær hæst. Gerðu þér engar grillur um
að hræða mig með djöfulskap þínum. Kom þú norn, kom þú
galdrakarl, kom þú töfralæknir indíánanna, kom þú djöfull og hér
kemur herra Brown. Þið getið allt eins óttast hann eins og hann
ykkur.“
Í sannleika sagt gat varla verið nokkuð uggvænlegra en herra
Brown í þessum draugaskógi. Hann geystist áfram milli svartra
furutrjánna, sveiflaði stafnum af hamsleysi og gaf ýmist andstyggi-
legu guðlasti lausan tauminn eða hló með þvílíkum sköllum að allt
bergmál skógarins hló eins og púki í kringum hann. Fjandinn í sinni
mynd er engan veginn eins ljótur og þegar hann hamast í brjósti
manns. Þannig hraðaði hinn djöfulóði för sinni þangað til hann sá
rautt ljós flökta á milli trjánna, eins og þegar kveikt hefur verið í
felldum trjábolum og greinum í rjóðri svo ægilegur bjarmi teygir sig
til himins um miðnæturbil. Hann staldraði við, þegar hlé varð á
ofviðrinu sem hafði knúið hann áfram, og heyrði í fjarska óm þess
sem virtist vera sálmur, kveðinn hátíðlega af margradda kór. Hann
þekkti lagið; kórinn í þorpskirkjunni söng það iðulega. Versið fjar-
aði þunglamalega út en kór dró seiminn, ekki mennskur heldur kór
sem var myndaður af öllum hljóðum myrkvaðra óbyggðanna í
hryllilegum samhljómi. Herra Brown öskraði upp en heyrði ekki
öskrið í sjálfum sér vegna þess að það rann saman við öskur auðn-
arinnar.
Í þögninni sem varð á milli stalst hann áfram þar til ljósið tók
að skína skært í augu hans. Yst á opnu svæði, sem var umkringt
dökkum skógarveggnum, reis klettur sem líktist ýmist altari eða
predikunarstól, og umhverfis voru fjögur logandi furutré, krónurnar
í björtu báli, stofnarnir ósnertir, eins og kerti á kvöldfundi.
Laufskrúðið sem sveipaði efsta hluta klettsins var eitt eldhaf,
logarnir teygðu sig hátt upp í nóttina og lýstu holt og bolt upp
svæðið. Sérhver slútandi grein og laufsveigur skíðlogaði. Með flökti
rauða ljóssins lýstist mannmargur söfnuður upp, hvarf síðan í
skugga, og óx svo eins og út úr myrkrinu og mannaði í einni svipan
hjarta þessa einmanalega skógar.
„Alvöruþrungið og dökkklætt fólk,“ varð herra Brown að orði.