Milli mála - 01.06.2014, Side 176
NATALIA DEMIDOVA
Milli mála 6/2014
190
málum þýðendur á borð við Gest Pálsson, Jón Runólfsson, Þorleif
H. Bjarnason, Steingrím Thorsteinsson, Magnús Ásgeirsson,
Þórodd Guðmundsson, Helga Hálfdanarson, Hannes Sigfússon og
Thor Vilhjálmsson. Ekki er hægt að segja með vissu hversu margir
þýðendur þýddu rússnesk ljóð úr öðrum tungumálum en rússnesku
en það er hins vegar vitað hver þeirra þýddi fyrst beint úr
rússnesku. Árið 1950 skrifaði Björn K. Þórólfsson í minningargrein
um Sigfús Blöndal: „… jeg veit ekki til að nokkur Íslendingur annar
hafi þýtt kvæði beint úr því máli [rússnesku]“.13
Athyglisvert er að konur hafa einkum þýtt ljóð eftir konur. Að
frátaldri leikritaþýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur, á Steingestinum
eftir Púshkín, völdu þrír af fjórum kvenkyns þýðendum, Áslaug
Agnarsdóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir og Vilborg Dagbjartsdóttir,
einungis verk eftir kvenkyns ljóðskáld í þýðingum sínum.
Þýðingar
Það væri líka hægt að flokka allar skráðar þýðingar út frá aðferðum
þýðenda við yfirfærslu endaríms í þýðingum sínum. Endarím er
nokkuð einkennandi fyrir rússneskan kveðskap og langflest skráðra
ljóða voru upphaflega ort með endarími. Endarímið skilaði sér þó
ekki alltaf í þýðingum.
Svo virðist sem viðhorf þýðanda til yfirfærslu ríms hafi oft
verið háð ríkjandi stefnum í íslenskum kveðskap. Í þýðingum fyrri
ára og allt til miðbiks 20. aldar var rússneskur kveðskapur að mestu
þýddur samkvæmt gamalli íslenskri bragarhefð og allar þýðingar
voru vandlega rímaðar. Þau fáeinu ljóð (fyrir utan prósaljóð Ívans
Túrgenev) sem ekki voru rímuð á frummálinu fengu endarím í
íslenskri þýðingu. Í þessu sambandi má nefna nokkur ljóð eftir
Aleksej Tolstoj og Ílja Ehrenbúrg í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar
en hann skrifaði í skýringum með þýðingu sinni á ljóðinu „Правда“
(„Sannleikurinn“) eftir Aleksej Tolstoj: „Kvæðið er þýtt eftir þýzkri
þýðingu eftir Fiedler. Er þar haldið frumhættinum, sem er rímleysa,
en af því að íslenzkum lesendum fellur – sem betur fer – það form
kveðskapar lítt í geð, tók ég þann kost að ríma þýðinguna“.14 Með
13 Björn K. Þórólfsson, „Dr. Sigfús Blöndal – Minningarorð“, Morgunblaðið, 13. apríl 1950.
14 Þýdd ljóð I, þýð. Magnús Ásgeirsson, Reykjavík: Bókadeild Menningarsjóðs, 1941, bls. 343.