Dagblaðið Vísir - DV - 19.08.2011, Blaðsíða 44
44 | Lífsstíll 19.–21. ágúst 2011 Helgarblað
M
aður á aldrei að
hugsa um hvort
maður sé gamall
eða ekki, maður á að
hugsa um hvað mað-
ur sé fær um að gera,“ segir Stef-
án Þorleifsson. Hann fagnaði 95
ára afmæli sínu á fimmtudaginn
og stundar enn íþróttir af kappi
þrátt fyrir að eiga aðeins fimm
ár í aldarafmæli sitt. Hann er
fæddur á Neskaupstað og býr
þar enn ásamt eiginkonu sinni,
Sigrúnu Guðjónsdóttur.
Hann segist stunda fjöl-
breytta hreyfingu og það sé að
miklu leyti lykillinn að góðri
heilsu hans og langlífi. „Við eldri
borgarar erum með sundleik-
fimi tvisvar í viku og þess á milli
fer ég í sund. Þegar það er brúk-
legt veður yfir sumartímann þá
fer ég í golf. Svo er ég líka í minni
eigin leikfimi, morgunleikfimi
og svona ýmislegt. Yfir vetrar-
tímann stunda ég vetraríþróttir
eins og skíði. Ég reyni að hreyfa
mig mjög mikið og tel að það sé
gott fyrir bæði sál og líkama.“
Alltaf haft gaman af dansi
Stefán er fæddur og uppalinn
á Neskaupstað og hefur alið
manninn þar alla tíð. Hann er
lærður íþróttakennari. „Það var
nú ekki auðvelt fyrir strák úr
frekar fátækri fjölskyldu að fara
til náms í fyrri kreppunni. Við
vorum fjórtán systkinin, ég er
fjórði elstur. Það kom þó að því
að ég fór í nám. Ég fór í Héraðs-
skólann á Laugarvatni og síðan
í Íþróttakennaraskólann. Þeg-
ar ég kom aftur heim tók ég við
íþróttakennslu við gagnfræða-
skólann og hjá íþróttafélaginu
og var þar í mörg ár. Ég tók svo
seinna við fjórðungssjúkrahús-
inu. Ég skildi samt aldrei við
íþróttirnar og hef aldrei gert.
Þó að ég hafi hætt kennslu þá
kenndi ég samt lengi við gagn-
fræðaskólann og svo hjá eldri
borgurum alveg þar til ég var 90
ára.“
Stefán hefur gaman af dansi
og dansar mikið. „Ég hef haft
afskaplega gaman af því að
dansa og dansa enn. Það er
danskennsla hjá okkur eldri
borgurum og ég er með í þeim
hópi. Dótturdóttir mín er dans-
kennari og kennir okkur eldri
borgurum einu sinni í viku. Ég
hef alltaf haft gaman af dansi.
Pabbi minn var harmonikku-
leikari og lék mikið fyrir dansi
og móðir mín hafði afskap-
lega gaman af því að dansa. Ég
var strax sem krakki farinn að
dansa og hef haldið því við alla
tíð. Dans er ágætis hreyfing og
líka skemmtileg.“
Konan enn jafn falleg
Stefán segist hafa verið svo lán-
samur að eiga góða konu í gegn-
um lífið. „Hún er enn jafn falleg
og hún var þegar við kynntumst.
Hún hefur alltaf verið falleg,“
segir Stefán um eiginkonu sína.
Þau giftu sig fyrir 66 árum. „Við
giftum okkur á gamlársdag árið
1945. Við vorum búin að þekkj-
ast í dálítinn tíma fyrir það. Hún
var mikið í íþróttum og ég var
íþróttakennari hjá félaginu. Hún
var mest í handknattleik og leik-
fimi. Hún fór svo burt í skóla en
kom aftur og við ákváðum að
leiðast saman á lífsleiðinni og
það hefur gengið vel.“
Þau deildu áhuga á íþróttum
og stunduðu bæði mikla hreyf-
ingu. Þau eru bæði við góða
heilsu en Sigrún sem er 9 árum
yngri en Stefán, glímir þó við
skerta sjón. Það hefur verið
henni fjötur um fót við stunda
eins mikla hreyfingu og hún
gerði áður með Stefáni. Þau fá
heimilishjálp einu sinni í viku,
tvo tíma í senn, en sjá annars
sjálf um heimilishaldið.
Þau eru enn jafn ástfangin og
þau voru í byrjun búskapar síns.
„Við erum alltaf jafn ástfangin.
Það er alveg óhætt að segja það.
Þó það breytist auðvitað á viss-
an hátt eins og annað í lífinu þá
erum enn afskaplega hamingju-
söm,“ segir hann glaður með
sína konu og bætir við: „Ég er
bara afskaplega hamingjusam-
ur. Ég hef átt yndislega konu og
við höfum hjálpað hvort öðru
í gegnum lífið. Við eigum líka
yndisleg börn, tvær dætur og
tvo syni. Við höfum verið ham-
ingjusöm og búum enn í okkar
húsi.“
Fluttu aftur heim af elli-
heimilinu
Hjónin ákváðu fyrir um tuttugu
árum að flytjast í íbúðir aldraðra
í bænum. Þá var Stefán 75 ára
og Sigrún 66 ára. Þau voru þar í
sex ár en fluttu svo aftur heim í
gamla húsið sitt sem þau byggðu
á árunum 1945–47. „Það er nú
bara þannig að heima er best að
vera,“ segir hann aðspurður um
ástæðu þess að þau fluttu aftur
heim í gamla húsið sitt. „Okkur
líður bara best heima. Hér var
meira pláss og maður er frjálsari
í eigin húsnæði.“
Stefán er virkur í starfi eldri
borgara í bænum. „Það er mikið
starf hjá eldri borgurum yfir vet-
urinn. Það er leikfimi, dansæf-
ingar, kór og maður reynir að
taka þátt í þessu. Það er mjög
mikils virði fyrir eldri borgara
að halda hópinn og koma sam-
an og njóta lífsins meðan heilsa
leyfir. Það eru ekki allir svo
heppnir að hafa heilsu og geta
tekið þátt.“
Hefur bara drukkið einu
sinni
En hverju þakkar hann þetta
mikla langlífi? „Ef ég gæti nú
svarað þeirri spurningu,“ seg-
ir hann hlæjandi en heldur svo
áfram: „Númer eitt þakka ég því
að ég hef alltaf verið mjög dug-
legur að hreyfa mig. Ég held að
hreyfing sé afskaplega mikils
virði til að halda góðri heilsu. Ég
held að hreyfing sé lykillinn að
því. Svo er það auðvitað það að
eiga góðan maka, góð börn og
bara góða fjölskyldu. Allt þetta
sem lætur manni líða vel. Ef
manni líður vel andlega og lík-
amlega þá held ég að það hafi
afskaplega góð áhrif. Síðan vil ég
taka það alveg sérstaklega fram
að ég hef aldrei reykt og alltaf
haft nóg að gera.“
Hann segir líka lykilatriði að
halda sig frá tóbaki og áfengi.
„Ég þekki svo marga sem hafa
drepið sig á reykingum, tóbaks-
notkun og víndrykkju, löngu
fyrir tímann. Ég hef aldrei notað
tóbak, aldrei reykt eða drukkið,
nema einu sinni. Það var á 20
ára afmælisdaginn minn. Þá var
ég skipverji á bát sem gerður var
út frá Akureyri. Þegar komið var
í land datt áhöfnin í það, eins og
algengt var. Ég drakk mig fullan
ásamt mínum skipsfélögum. Ég
varð þess áskynja hve áfengið er
mikið böl og sá hve margir voru
illa á sig komnir vegna vinfengi
við Bakkus. Ég skammaðist mín
svo fyrir það að ég hét sjálfum
mér því að þetta skyldi ég aldrei
gera aftur og það hef ég stað-
ið við hingað til,“ segir Stefán.
Tóbak er honum ekki heldur
að skapi. „Ég þekki aðeins einn
reykingamann sem hefur orð-
ið langlífur. Hann varð níræð-
ur. Það er mikið atriði að yfir-
völd leggi mikla áherslu á þetta.
Ég held það haldi mörgum frá
sjúkrarúminu að halda sig frá
tóbaki. Og munntóbak og nef-
tóbak held ég að sé ekkert skað-
lausara.“
Fer 18 holur á golfvellinum
Á veturna skellir Stefán sér á
skíði en á sumrin fer hann í golf.
Hann hefur lengi verið áhuga-
maður um golf og er einn af
stofnendum Golfklúbbs Norð-
fjarðar, sem stofnaður var 1965.
Á laugardaginn fer fram golf-
mót til heiðurs honum á Nes-
kaupstað, Stefánsmót. „Ég tek
þátt í því en býst nú ekki við að
vinna. Ég hef ekki metnað né
getu í það lengur,“ segir Stefán
hlæjandi aðspurður hvort hann
stefni á sigur. „Þeir halda þetta
til heiðurs mér, blessaðir, vegna
þess að ég var lengi formaður
golfklúbbsins og stóð fyrir fram-
kvæmdum þar. Það er gaman að
því og sérstaklega þegar maður
getur verið sjálfur með.“
Stefán fer átján holur eins
og hinir keppendurnir. „Félags-
skapurinn og að geta verið með
er það sem mig mestu máli.
Maður verður nú samt að klára
þetta. Það þýðir ekkert að byrja
og hætta. Það þarf að gera þetta
almennilega.“
Hann segist ætla að stunda
íþróttir eins lengi og hann geti.
„Ég ætla að stunda íþróttir með-
an lappirnar bera mig og jafn-
vel lengur,“ segir hann kankvís
og bætir við: „Nú er hægt að fá
svona rafskutlur eða litla bíla til
að fara á golfvöllinn. Ég er nú
búinn að fá svona golfbíl til að
létta undir hjá mér þannig að ég
get haldið endalaust áfram.“
Stefán segist vera mjög ham-
ingjusamur og sáttur við líf sitt.
„Mér finnst bara mjög gaman
að lifa. Ég er bara sáttur við lífið
meðan ég er í sæmilegu lagi og
hef góða heilsu.“
„Konan
enn jafn falleg“
Stefán Þorleifsson er 95 ára og enn í fullu fjöri. Hann spilar golf, fer á skíði, dansar,
syndir, gengur og stundar leikfimi af fullum krafti. Íþróttunum þakkar hann langlífi sitt og er
enn jafn ástfanginn af konunni sinni og hann var þegar þau kynntust. Fyrir 20 árum fluttu
þau hjónin á elliheimili en héldu aftur heim í gamla húsið sitt nokkrum árum seinna og búa
þar enn. Um helgina verður haldið golfmót til heiðurs Stefáni í heimabæ hans, Neskaupstað.
Viktoría Hermannsdóttir
viktoria@dv.is
Viðtal
Spilar 18 holur Stefán er mikill golfáhugamaður og fer reglulega 18 holur.
Hann ætlar að taka þátt í Stefánsmótinu á laugardag en það er golfmót
haldið til heiðurs honum.
Enn jafn ástfangin
Hjónin segjast enn vera jafn
ástfangin og þau voru fyrst
þegar þau kynntust.
myndir Emil tHorArEnSEn