Són - 01.01.2010, Blaðsíða 120
GUNNAR SKARPHÉÐINSSON120
en hnígur svo, að séð ei fær,
að sveitin af hans starfi grær.
Annað ris má segja að ljóðið öðlist þar sem lýkur að segja frá kenn -
ingu Krists. Þau erindi eru í senn vel kveðin og máttug og þar er
eðlilega mestur siðferðislegur þungi. Þarna verða hvörf í ljóðinu og
skáldið snýr sér að því að leggja út af lífssögu Krists og boðskap og
að lokum annarra mannkynsvelunnara.
Stefán stillir stílbrögðum í hóf í ljóðinu og orðfæri er fremur einfalt
og óbrotið. Höfuðáhersla hvílir á inntaki og boðskap og vitsmunaleg
skírskotun og rökvísleg því skáldinu mest að skapi. Setningaskipun
ber með sér að ákveðin útlistun er óhjákvæmileg og fyrir vikið er all -
mikið um undirskipaðar setningar, einkum tilvísunar- og skýringar -
setningar. Þetta firrir ljóðið að vísu lýrískum þokka en styrkur þess
liggur líka á öðru sviði, hinu vitsmunalega.
Stefán leitast oft í ljóðum sínum við að brjóta tiltekin mál til
mergj ar og ber stíll hans sterkan svip af þessu. Hann leiðir þá undir -
skipaðar setningar út frá aðalsetningu sem mynda svo röklega heild.
Vitsmunir hafa einnig þótt aðalsmerki hans fremur en tilfinningar.
Séra Matthías nefndi hann því réttilega höfuð-skáld.5 Um ljóð Stefáns
hefur oft verið sagt að erfitt geti verið að skilja þau þar sem stílnum
sé ábótavant. Þannig tekur Sigurður Nordal til orða um þetta atriði:
„Skipun orða og tengsl setninga geta verið svo klúsuð, að það sé
ekki einungis til óprýði, heldur geri erfitt að komast að efninu.“6
Stefáni var þetta sjálf um raunar fullljóst. Hann ræðir þetta til dæmis
eitt sinn á skýran og eftirminnilegan hátt í sendibréfi og þar kemur
fram að hann telur sig ‘aldrei hafa haft tíma til að hefla’ eins og hann
kemst að orði.7 En í ljóðinu „Eloi lamma sabakhthani!“ má óhikað
5 Í bréfi til síra Valdimars Briem, sem dagsett er 1. jan. 1910, kemst Matthías Joch -
umsson svo að orði: „Ég hef stúderað hinn ramma Stephan G. í Klettafjöllunum.
Ekki impónerar hann mér né fullnægir til lengdar – fremur en E. Ben. Hann er
höfuðskáld, en hjartaskáld ekki.“ Bréf Matthíasar Jochumssonar (1935:453).
6 Stephan G. Stephansson (1939:xxxi–xxxii).
7 Í bréfi til Eggerts Jóhannssonar sem dagsett er 12. desember 1907. Um þessar
mundir er verið að gefa út Andvökur Stefáns og hann hefur lagt mikla vinnu í að
velja úr ljóðunum. Honum finnst erfitt að sleppa því sem eigi erindi en vill þó ekki
taka neinn leirburð í safnið. Hann segir: „Tvær leiðir liggja til listar í formi, að láta
orðin liðast saman, létt og mjúkt, eins og silkiþráð, eða greipa þau saman, sterk og
tíguleg, eins og stuðlaberg. Ég hefi þreytt hvort tveggja. En í æsku byrjaði ég á reglu
Tómasar heitins Sæmundssonar, „að læra fyrst að hugsa, svo lærði maður að tala“.
Ég kunni þá ekki spakmælið sjálft. En merki þess báru kvæði mín oft, og aldrei hafði
ég tíma til að hefla.“ Stephan G. Stephansson Bréf og ritgerðir (1938–1939, I:160).