Són - 01.01.2010, Blaðsíða 127
UM LJÓÐIÐ „ELOI LAMMA SABAKHTHANI!“ EFTIR STEFÁN G. 127
Sigurð Trölla eftir Stefán: „Lífsskoðun skáldsins er einmitt athyglisverð
vegna þess, að hann er í senn aþeisti og móralisti.“13 Undir þetta virðist
réttmætt að taka og jafnframt má bæta því við að siðaboð skapur
skáldsins rís í öllum meginatriðum á kristilegum grunni. Segja má að
Stefán sé kristinn maður án guðs eins og sagt var um Auguste Comte,
heimspekinginn sem mótaði pósitívismann, að heimspeki hans væri
„kaþólska án guðs“.14 Stefán er í öllum verkum sínum ákaf ur móral-
isti í jákvæðum skilningi þess orðs og í höfuðdráttum tekur hann undir
siðferðisboðskap kristindómsins. Hann gengur því á svig við eilífðar-
málin og guðdóminn en hin kristilega breytni er honum eftir sem áður,
og þó öllu fremur enn frekar en áður, þungamiðja í lífi mannsins,
Mannsins með stórum staf, þar sem öll ábyrgð er nú lögð honum
á herðar. Hin guðlega forsjón og handleiðsla, sem menn áður hlýddu
og reiddu sig á, er augljóslega horfin. Í hennar stað virðist Stefán setja
allt sitt traust á „framför“ meðal mannanna. Smátt og smátt vex
þekking manna og þar með aukinn skilningur og þar af sprettur betri
sambúð og samkomulag í mannheimi. Hann talar á einum stað í bréfi
um „siðferðis-framförina“ sem „stríðið eilífa“.15 Und ir rótin að þessum
skiln ingi liggur sennilega að hluta til í því andlega lífi sem einkennir
vestrænan heim á seinni helmingi 19. aldar. Andlegt líf 19. aldar var
mikilfenglegra og flóknara en allra fyrri alda og það var margt sem því
olli. Vísindin höfðu verið sífelld upp spretta nýjunga síðan á 17. öld
en unnu enn nýja sigra, ekki síst á sviði landafræði, líffræði og líf -
efnafræði. Véltæknin á sviði framleiðslu varð til þess að þjóðfélags-
gerðin breytt ist gjörsamlega og olli því að menn litu mátt sinn og
megin öðrum augum í átökum við náttúruöflin en fyrr. Hin djúptæka
bylting, sem á sér stað jafnt í heimspekilegum sem pólitískum efnum,
verður til þess að kollvarpa hefðbundnum hugmyndakerfum og stofn -
unum og hrind ir af stað árásum á margt í trú og stjórnmálum sem
áður hafði þótt óumdeilanlegt. Margar arfhelgar og gamalgrónar hug -
myndir verða að láta undan og brátt tekur að hrikta í viðteknum
trúarhugmyndum. En ákveðinnar bjartsýni gætir þar sem menn sjá
13 Hannes Pétursson (1959:38).
14 Thomas Huxley segir í bók sinni The Scientific Aspects of Positivism: „Comte’s ideal
…is Catholic organization without Catholic doctrine, or, in other words,
Catholicism minus Christianity.“ Tekið hér eftir Mary Pickering: Auguste Comte. An
Intellectual Biography, Volume I: 16-17. Ég vil þakka Vilhjálmi Árnasyni fyrir að
benda mér á þessa tilvitnun.
15 Stephan G. Stephansson í bréfi til séra Rögnvalds Péturssonar, 11. okt. 1926, Bréf
og ritgerðir (1947, III:331).