Són - 01.01.2010, Blaðsíða 204
BENEDIKT HJARTARSON204
tíðinni, einhverju „sem hefur átt að fara leynt og vera falið, en hefur
komið fram í dagsljósið“.84
Veigameiri en gagnrýnin, sem hér er lýst, er þó þverstæðan sem
kraumar undir texta Eiríks Arnar en hvergi er vikið að berum orðum.
Að ganga inn í framúrstefnuna sem hefð er augljóslega þverstæðu -
kenndari gjörningur en að ganga inn í aðrar hefðir, enda byggir hefð
framúrstefnunnar á hugmynd um andhefð, þar sem lýst er yfir dauða
hefðarinnar og fæðingu hins nýja. Írónían sem hér skín í gegn setur
mark sitt á starfsemi allrar nýframúrstefnu. Höfundar og listamenn
sögulegu framúrstefnunnar gátu lýst því yfir digrum rómi að „maður
geti ekki dröslast með hræið af pabba sínum út um allt“,85 svo vitnað
sé í orð Apollinaires – en nýframúrstefnan er með annað lík í eftir -
dragi, sem er jafnvel erfiðara að losa sig við: framúrstefnuna sjálfa. Sú
staðreynd að framúrstefnan er orðin að hefð býr innra með verkum
nýframúrstefnunnar sem írónísk vitund um gildi endurtekningar -
innar. Hugmyndafræðileg þverstæða nýframúrstefnunnar felst í því
að hún heldur í þrá fyrri framúrstefnuhreyfinga eftir sköpun nýs
menningarlegs rýmis en byggir um leið á vitund um að þessi útópía
er ávallt handan við sjóndeildarhringinn. Þessari gagnrýnu íróníu
hefur sitúasjónistinn Guy Debord lýst með skýrum hætti í riti sínu
um „sýningarsamfélagið“ frá 1967:
Á tíma upplausnar sinnar er listin, sem neikvæð hreyfing er
leitast við að yfirstíga listina í sögulegu samfélagi þar sem sagan
er ekki enn lifuð, í senn list breytinga og hrein tjáning þess að
breytingar eru útilokaðar. Því stórfenglegri sem krafa hennar er,
þeim mun fjarlægari er möguleikinn á að gera hana að veru -
leika. Þessi list er óhjákvæmilega framúrstefna og hún er ekki.
Framúr stefna hennar er hvarf hennar.86
Nýframúrstefnan viðheldur því útópíska verkefni sem miðar að
sköpun nýrrar fagurfræði. Í yfirlýsingum hennar um sköpun hins
nýja felst þó ekki lengur hefðarrof heldur hefðarvitund, þær hljóma
eins og bergmál horfinnar raddar en eru meðvitaðar um eigin íróníu
84 Sigmund Freud. „Hið óhugnanlega“. Þýð. Sigurjón Björnsson. Listir og listamenn.
Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2004, s. 191–233, hér s. 200.
85 Guillaume Apollinaire. Les Peintres cubistes, ritstj. L.C. Breunig og J.-Cl. Chevalier.
París: Hermann, 1965, s. 46.
86 Guy Debord. La Société du Spectacle. París: Gallimard, 1992, s. 185.