Són - 01.01.2010, Blaðsíða 124
GUNNAR SKARPHÉÐINSSON124
Sú athugun, sem hér fer á eftir, miðast einkum við fyrsta þemað.
Það er einnig meginþema ljóðsins og leiðir skáldið hin tvö út frá því.
Athugunin byggir á þeirri forsendu að það siðgæði, sem skáldið ætlar
að Kristur boði, sé jafnframt það siðgæði sem það aðhyllist sjálft.
III Samanburður við guðspjöllin
Til þess að gera sér betur grein fyrir því, hvað Stefán hyggur mikil -
vægustu þættina í boðskap Krists og hvað hann dregur undan eða kýs
að sleppa, skal þess freistað að bera nokkur erindi ljóðsins saman við
guðspjöllin. Þau eru bersýnilega efniviður ljóðsins og athugasemdir
Stefáns í því eintaki af Andvökum, sem hann átti sjálfur og nú er geymt
í handritadeild Landsbókasafnsins, sýna það einnig. Við ljóðið hefur
hann einungis skrifað: „Guðspjöllin í Nýjatestamentinu“. Stefán var
gjörkunnugur ritningunni og bera ljóð hans glöggt vitni um það.
Þekkingu hans í þeim efnum þarf heldur ekki að undrast þegar eftir-
farandi orð hans eru höfð í huga:
Í Víðimýrarseli lá ég í lánuðu skruddunum, hvenær sem ég
komst að. Las t.d. „Grútar“-biblíu mína þrisvar alla einn vetur,
út úr bókaskorti.10
Eins og kunnugt er eru guðspjöll Nýja testamentisins fjögur og eru
þau þrjú, sem raðað er fyrst, oft nefnd samstofna guðspjöllin vegna
náins efnisskyldleika og þess að þau birta áþekka mynd af Jesú og
siða- og trúarkenningu hans. Þessi þrjú guðspjöll eru kennd við guð -
spjallamennina Matteus, Markús og Lúkas. Fjórða guðspjallið, það
sem kennt er við Jóhannes, hefur greinilega sérstöðu. Á það jafnt við
um efni þess og anda. Siðalærdómar Krists og kærleikskenningar hans
birtast fremur í samstofna guðspjöllunum en í Jóhannesar guðspjalli er
lögð rík áhersla á það að Kristur sé guðs eingetinn sonur og dýrð
hans vegsömuð. Hann deyr vegna mannanna og þeir verða sálu -
hólpnir fyrir trú á hann og fyrir fórnfæringardauða hans.
Sumir hafa tekið svo til orða að samstofna guðspjöllin lýstu Jesú
sem manni en Jóhannesarguðspjall sem guði en aðrir mótmæla þessu
og tilfæra staði í samstofna guðspjöllunum þar sem guðdómur frels -
arans kemur einnig fram.11
10 Stephan G. Stephansson Bréf og ritgerðir. Drög til ævisögu (1948, IV:91).
11 Sjá í þessu sambandi til dæmis lokavers Matteusarguðspjalls.