Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 9
Samskipti Þormóðar Torfasonar
✓
og Arna Magnússonar
ÓLAFUR HALLDÓRSSON
Á seytjándu öld áttu Danir og Svíar hvað eftir annað í ófriði, en þótt friður
ætti að heita á stundum var vináttan völt og undirbúningur mikill undir
næstu átök. Að þeim undirbúningi stóðu að sjálfsögðu stjórnarherrar með
konung í fararbroddi, svo og vopnasmiðir og hermenn. En vösulbeina
fræðimenn, sem margir hverjir hafa varla dugað til að draga sverð úr slíðrum,
létu heldur ekki sitt eftir liggja og reyndu að sjá þjóð sinni fyrir þeim
andlegu vopnum sem einnig duga í stríði, að hugirnir megi herðast,
föðurlandsástin eflast og þjóðarstoltið vaxa.
Það mun lengst af hafa verið reynsla þeirra þjóða sem hafa stundað á
ófrið og manndráp, að hetjusögur af forfeðrum hermannanna væru engu
síður sigurstranglegar í bardaga en beitt vopn, og ætli þetta sjónarmið hafi
ekki meðal annars stuðlað að uppkomu og varðveislu hetjukvæða og
hetjusagna, þótt þörf þeirra sem heima sátu á fletum sínum fyrir skemmtun
og æsilegar frásagnir hafi einnig ráðið miklu. En það gefur að skilja að
hernaðarþjóð verður að eiga sér sína sögu og dugir þá engin vella um góða
menn og guðhrædda. Á þessum vettvangi stóðu Svíar í fyrstu höllum fæti
fyrir Dönum. Danir áttu sér gamla Danmerkursögu sem Saxi hinn málspaki
samdi á latínu kringum aldamótin 1200 - menn halda að hann hafi lokið
henni á fyrsta eða öðrum áratug þrettándu aldar -, en Svíar höfðu engu slíku
til að tjalda.
Þegar Saxi skrifaði Danmerkursögu sína stóð að vissu leyti svipað á fyrir
Dönum og á 17. öld; þeir áttu í ófriði við nágrannalönd sín, en sunnan úr
Evrópu hafði borist andblær af menningu þeirra þjóða sem meðal annars
lögðu rækt við ritun sögu sinnar. Sjálfur segir Saxi að Absalón erkibiskup
hafi hvatt hann, og enda neytt hann til að taka að sér verkið, en mjög þykir
nútímamönnum óvíst að hann hafi þurft mikillar brýningar við, slík sem
frásagnargleði hans er. Sögu sína segist hann skrifa til þess að Dani þurfi ekki
að vanta frásagnir af hetjudáðum forfeðranna, meðan aðrar þjóðir líti um öxl
til frægðarljóma fortíðarinnar.1 Þessi orð minna óneitanlega á brot úr
eftirmála við Þórðarbók Landnámu, sem fræðimenn hafa helst viljað telja
1 Saxonis gesta Danorum [...] Recognoverunt et ediderunt J. Olrik & H. Ræder.
Hafniæ 1931. Tomus I, bls. 3.
SKÁLDSKAPARMÁL 2 (1992)
7