Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 12
10
Ólafur Halldórsson
hlustendum litla hugmynd um ritstörf þessa mikilvirka sagnaritara og
afskipti Árna Magnússonar af þeim. Ég verð þá fyrst að víkja nokkrum
orðum að ævi Þormóðar Torfasonar, menntun hans og störfum. Aðalheimild
mín um það efni er ævisaga Þormóðar, skrifuð á dönsku af Jóni Eiríkssyni
konferensráði og birtist í danska tímaritinu Minerva 1786-88, ennfremur
stutt æviágrip sem Árni Magnússon hefur skrifað nafn sitt undir og er
prentað í ritinu Árni Magnússons levned og skrifter (Kaupmannahöfn 1930),
2. bindi, bls. 127-35.
Þormóður Torfason var fæddur í Engey 27. maí (eftir gamla stíl) árið
1636, sex árum síðar en Olaus Rudbeck hinn sænski. Foreldrar hans voru
Torfi sýslumaður Erlendsson og kona hans, Þórdís Bergsveinsdóttir prests
að Útskálum, Einarssonar. Erlendur afi Þormóðar var Magnússon, þriðji
maður frá Torfa Jónssyni sýslumanni í Klofa, sem kunnastur er af skiptum
sínum við Lénharð fógeta, en í móðurætt var Þormóður skyldur Guðbrandi
Hólabiskupi Þorlákssyni, - séra Bergsveinn afi hans og Guðbrandur biskup
voru bræðrasynir. Svo sem venja var um heldrimanna börn var Þormóður
settur til bóknáms, fyrst í lestri og skrift, en síðan í latínu. Ellefu ára gamall
var hann sendur í Skálholtsskóla og þaðan útskrifaðist hann eftir sjö ára nám
árið 1654. Á þeim árum var Brynjólfur Sveinsson biskup í Skálholti, einhver
mesti lærdómsmaður í grískum og latneskum fræðum sem uppi hefur verið
á íslandi, en einnig vel að sér í fornum bókmenntum Islendinga og hafði gott
vit á gömlum handritum. Nærri má geta að handleiðsla þessa lærdómsmanns
hefur haft mikil áhrif á Þormóð.
Þormóður fór utan síðari hluta sumars 1654 með skipi sem sigldi til
Amsterdam, og segir í ævisögubrotinu sem er eignað Árna Magnússyni, að
hann hafi þá fengið tækifæri til að skoða þessa dásamlegu borg sem sé fræg
um alla Evrópu. Þremur vikum fyrir jól kom Þormóður til Kaupmanna-
hafnar. Þá hafði nýlega gengið drepsótt í Danmörku, og var háskólinn af
þeim sökum í lamasessi, og innritaðist Þormóður ekki fyrr en vorið 1655.
Við Hafnarháskóla lagði hann stund á guðfræði að þeirrar tíðar hætti og lauk
prófi í þeirri grein 4. maí 1657 með einkunninni laudabilis, og mundi nú vera
kallað fyrsta einkunn, en um sumarið sigldi hann til Islands og dvaldist þar
næsta vetur. Hann mun ekki hafa haft hug á að gerast embættismaður á
íslandi, að minnsta kosti ekki fyrst um sinn, og mundi líklega ekki hafa lotið
að neinu lægra en hinum æðstu metorðum, ef til þess hefði komið, til dæmis
biskupsembætti í Skálholti. Trúlega hefur þó hvorki honum sjálfum né
neinum öðrum dottið í hug að hann væri rétti maðurinn til að gegna slíku
starfi.
Þormóður hlaut þau einkennilegu örlög að lenda hvað eftir annað í
ævintýrum og sumum þeirra hættulegum, enda mun hann hafa verið djarfur
maður og ekki úr hófi forsjáll. Hann sigldi aftur áleiðis til Danmerkur
sumarið 1658, en þegar skip það sem hann fór með kom til Noregs fréttist að
stríð væri rétt einu sinni milli Svía og Dana og siglingaleiðin til Hafnar mjög