Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 14
12
Ólafur Halldórsson
íslenskra stúdenta, einkum þó við skriftir, en einnig hafa danskir menn
hreinritað þýðingar hans. Þessar þýðingar Þormóðar, sem ég hef séð, eru
einhverjar verstu bækur sem um getur; hann hefur ekki kunnað meiri
dönsku en flestir aðrir íslenskir stúdentar á hans dögum, nægilega mikið til
þess að komast allra sinna ferða og verða sér úti um lífsnauðsynjar og þá
dægrastyttingu sem staðurinn hafði upp á að bjóða, en vafasamt er að hann
hafi nokkurn tíma átt viðræður við lærða menn á dönsku.
Þormóður var duglegur að lesa handrit, en framan af ævi sinni, að
minnsta kosti, var hann ekki vel að sér í íslenskri málfræði og kunni lítið í
skáldamáli. Vísur í Flateyjarbók eru víða herfilega rangar, og líklega hafa þær
ekki batnað í eftirriti Þormóðar. Hann tók allar vísur upp í þýðingar sínar á
íslensku og hefur raunar byrjað á að snúa þeim á dönsku, en gefist upp við
það. Sums staðar hefur Þormóður skrifað vísurnar í tvo dálka á blaðsíðu,
fyrstu fjögur vísuorðin í fremri dálk, en þau síðustu fjögur í aftari dálk, en
svo hefur sá eða þeir sem hreinrituðu sett vísurnar í einn dálk og ekkert áttað
sig á í hvaða röð línurnar áttu að vera, þar sem þeir skildu ekki orð af því sem
þeir voru að skrifa, og mundi líklega seint verða komist nærri því hvernig
skáldin ortu í upphafi, ef enginn annar texti væri til af þessum vísum.
Þormóður leitaði aðstoðar Brynjólfs biskups Sveinssonar til að fá skýringar
á vísum, einkum þeim sem stóðu í Ólafs sögu Tryggvasonar. Af þeim
málaleitunum eru sprottnar skýringar séra Hallgríms Péturssonar yfir vísur
í þessari sögu, sem eru víða til í handritum, meðal annars eitt í British
Library, sem Jón Helgason prófessor hefur sýnt fram á að sé eiginhandarrit
Hallgríms.8
Árni Magnússon getur þess í minnisgreinum sínum að auk þess sem
Þormóður snéri úr Flateyjarbók hafi hann þýtt Grettis sögu, Njáls sögu,
Hrólfs sögu kraka, Hrólfs sögu Gautrekssonar og Herrauðs sögu og Bósa,
sem Jón Eiríksson segir að hann hafi þýtt eftir handriti er hafi haft Buslubæn
mjög rækilega, en það kvæði kallar Jón ‘óheyrilega særingarþulu, sem betur
ætti skilið að gleymast að eilífu en að varðveitast óbornum kynslóðum til
lesningar.’ Auk þessa telur Jón Eiríksson Gísla sögu Súrssonar og Þorsteins
sögu Víkingssonar.9 Einnig er vitað að Þormóður þýddi Grágás, glefsur úr
Snorra-Eddu, og ef til vill hefur hann einnig byrjað á að þýða Sæmundar-
Eddu, en séra Torfi Jónsson í Gaulverjabæ réð honum frá að fást við Eddu-
kvæðin, sem hann sagði að aldrei mundu verða þýdd á erlent mál svo að allt
yrði rétt skilið og öll fegurð þeirra kæmi til skila.10 Mestur hlutinn af
þýðingum Þormóðar er enn til í eftirritum í Konungsbókhlöðu í Kaup-
mannahöfn, en frumrit hans sjálfs brenndu þeir Árni Magnússon norður á
Stangarlandi í Körmt árið 1712, og vík ég að þeirri bókabrennu síðar.
Sumarið 1662 sendi konungur Þormóð til Islands með erindisbréfi til
8 Jón Helgason. Ritgerðarkorn og ræðustúfar. Reykjavík 1959, bls. 121-22.
9 Minerva 1786, bls. 677-79.
10 Bréf séra Torfa Jónssonar til Þormóðar eru varðveitt í AM 285b fol. IV.