Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 26
24
Frangois-Xavier Dillmann
Áttunda og síðasta einkenni er að shamaninn á sérstakan búning og
trumbu. Búningur hans er oftast möttull sem táknar einhvern fugl eða hjört
eða björn. Á möttlinum hanga litlir málmskildir sem er ætlað að gefa mynd
af beinagrind. Trumban er mikilvæg, vegna þess að hún er tæki sem gerir
shamaninum kleift að komast í algleymið, og á hana eru oft dregin tákn
þeirrar heimsmyndar sem var nefnd hér á undan.
I lok greinarinnar dró Vajda tvær ályktanir:
Schamanismus ist kein Kultur-'element’, sondern ein Komplex von Erschein-
ungen, die in charakteristischer und sinnvoller Verbindung miteinander auftreten.
Og í öðru lagi:
Keine der Komponenten reicht allein aus, den ganzen Komplex zu
determinieren; jede von ihnen ist auch aujlerhalb des Schamanismus verbreitet;
erst das typische Zusammenauftreten dieser auf einander abgestimmten Zúge
ergibt das komplexe Phánomen, das wir Schamanismus nennen.
Kosturinn við þessa skilgreiningu - sem er unnin af mikilli þekkingu á
þjóðfræðilegum ritum - er augljós. Hún gerir okkur kleift að ákvarða
hvort raunverulegur shamanismi hafi komið fram í ákveðnu menningar-
umhverfi, til dæmis á Islandi til forna. Nú fyrst höfum við skýrari hugmynd
um hvað átt er við með hugtakinu „shamanismi", sem áður var ekki nógu
greinilega afmarkað. En auðvitað væri of langt gengið að krefjast þess að öll
þessi átta einkenni verði að finnast til þess að hægt sé að tala um shaman-
isma. Og þetta gildir sérstaklega þegar um er að ræða heimildir eins og
Islendingasögur.
Nú er það alkunna að Islendingasögur eru engar ferðasögur eða rann-
sóknaskýrslur skráðar af fræðimönnum með áhuga á þjóðfræði eða trúar-
bragðafræði. Þær eru fyrst og fremst bókmenntir, og það þýðir meðal annars
að ólíklegt er að höfundar þeirra hafi útlistað nákvæmlega feril allra persóna,
allra síst aukapersóna. I annan stað voru bókmenntaverk þessi samin að
verulegu leyti nokkrum öldum eftir þá atburði sem þau lýsa eða segja frá, og
- það sem er líklega ennþá mikilvægara í þessu samhengi - þau voru samin í
öðru trúarlegu umhverfi. Það er því líklegt, ef shamanismi hefur þekkst á
Islandi einhvern tíma fyrir kristni, að þá myndu fornar bókmenntir um
söguöld einungis hafa varðveitt fáeina þætti af hinu margbrotna fyrirbrigði
sem er kallað shamanismi stricto sensu.
Nú er spurningin þessi: hvaða einkenni ættum við að telja ómissandi þegar
meta skal hvort einhverjum forníslenskum trúarsiðum svipi til shamanisma?
Með tilliti til rannsókna þeirra Vajda og Eliade tel ég að algleymið og
sálfarir til himins eða helvítis þurfi að koma skýrt fram í þeim frásögnum
sem til umfjöllunar eru, og að þær frásagnir þurfi að fela í sér ýmis atriði sem
gætu að minnsta kosti bent til tilveru hjálparandanna í dýralíki. Ef þessi