Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 27
25
Seiður og shamanismi í íslendingasögum
atriði kæmu í ljós, þá væri um að ræða það sem ég myndi vilja kalla
„einföldustu gerð shamanisma“ utan þess svæðis þar sem hann er að finna í
fyllri mynd .
Frásagnir af seið í Islendingasögum
Nú skulum við huga að frásögnum af seið í íslendingasögum. Svo sem
vikið var að í upphafi þessarar greinar, telja flestir norrænufræðingar sem um
þetta efni hafa skrifað, að seiðurinn sé hin norræna hliðstæða við shaman-
isma. Af þessum sökum þykir mér rétt að taka einvörðungu seiðinn til
umfjöllunar í þessari grein, það er að segja seiðinn í upprunalegri merkingu
orðsins, sem notuð er um eina sérstaka tegund af norrænum galdri, sam-
kvæmt lýsingu á þessari tegund galdurs í fornum bókmenntum og ræki-
legum rannsóknum Dags Strömbácks. Aðrar tegundir galdra eða trúarbragða
verða - af skiljanlegum ástæðum - ekki til umræðu.
í íslendingasögum og Landnámu er tíu sinnum getið um seið. Fimm
sinnum er vikið að honum í mjög fáum orðum, það er í Laxdæla sögu, 77.
kapítula, Njáls sögu, 30. kapítula, Egils sögu, 59. kapítula, Kormáks sögu, 6.
kapítula, og í Landnámu, þar sem sagt er frá Þuríði sundafylli landnámskonu
í Bolungarvík. En fimm sinnum er um að ræða meira eða minna gaumgæfi-
legar lýsingar á seiðathöfninni sjálfri. Þessir fimm staðir eru: Gísla saga Súrs-
sonar, 18. kapítuli í styttri gerðinni, sem svarar til 20. kapítula lengri gerðar-
innar og til bls. 46^17 í útgáfu Jóns Helgasonar frá árinu 1956 af brotinu í AM
445c4to I. Þar er sagt frá Þorgrími nef sem framdi seið móti þeim manni sem
hafði drepið Þorgrím Freysgoða. - Laxdæla saga, 35. kapítuli, þar sem sagt er
frá Kotkatli og Grímu og sonum þeirra sem frömdu seið á móti óvini sínum,
Þórði Ingunnarsyni. - Laxdæla saga, 37. kapítuli, þar sem er sagt frá seiðathöfn
þessara sömu galdramanna á móti Kára Hrútssyni. - Vatnsdæla saga, 9.
kapítuli í útgáfu Finns Jónssonar, sem svarar til 10. kapítula í útgáfu Einars
Ólafs Sveinssonar í íslenzkum fornritum. Þar segir frá því að Ingjaldur bóndi
í Hefniey í Noregi bauð seiðkonu nokkurri heim til þess að menn skyldu leita
eftir við hana um forlög sín. - Fimmta ritið er Eiríks saga rauða, 4. kapítuli, þar
sem segir frá Þorkatli bónda á Herjólfsnesi á Grænlandi, að hann bauð til sín
seiðkonu, Þorbjörgu lítilvölvu, til að forvitnast um árferði og forlög manna.
Þessi síðastnefndi staður ber af öllum öðrum frásögnum um seið í
íslendingasögum, sem stafar af því að höfundur Eiríks sögu hefur samið bæði
lengstu og nákvæmustu lýsingu á því hvernig seiðmaður framdi íþrótt sína.
Þetta er staðreynd sem allir fræðimenn eru með réttu sammála um, en af því
hefur leitt að fjórði kapítuli Eiríks sögu hefur langoftast verið tekinn til
umræðu þegar um þessi efni hefur verið fjallað.
Áður en farið verður að huga að því hvort þessi kafli sé sannanlega dæmi
um shamanisma í fornnorrænu trúarlífi er líklega best að líta á textann, en