Skáldskaparmál - 01.01.1992, Síða 30
28
Franqois-Xavier Dillmann
röksemdir til þess að fá hina kristnu konu til að syngja heiðið kvæði, og hún
eggjar einnig Þorkel bónda, gestgjafa sinn, til að herða að Guðríði.
Segja má að þegar viðstaddar konur slógu hring um hásætið þar sem
Þorbjörg hafði sest og Guðríður hóf sönginn, þá hafði Þorbjörg náð því sem
hún vildi fá einvörðungu með hjálp rökfærslu - hún hafði á reiðum höndum
svör og mótröksemdir við tregðu Guðríðar. Af þessu er ljóst að andi hennar
var óneitanlega viðstaddur og hafði ekki farið úr líkamanum til þess að fara á
flakk. Og á meðan Guðríður kvað kvæðið sést að seiðkonan var líka
viðstödd bæði líkamlega og andlega. Hvernig hefði hún að öðrum kosti
getað fylgst með kveðandinni og að henni lokinni sagt að „kvæðið þótti
fagurt að heyra“? Þá reyndist andi Þorbjargar vera sérstaklega vakandi og
langt frá því að vera fjarlægur meðan kvæðið var kveðið, því að augljóst er að
seiðkonan er á verði. Hún veit að söngurinn getur dregið að henni ýmsa
spádómsanda, og hún fylgist vel með komu þeirra, vegna þess að þá fyrst
öðlast hún þekkingu á óorðnum hlutum.
Athyglisvert finnst mér ennfremur að seiðkonan er í fullkomnu jafnvægi
þegar hún segir fram spádóm sinn og að höfundur sögunnar minnist ekki á
að hún hafi verið þreytt eftir seiðinn. Þorbjörg geispar reyndar ekki, hún er
ekki sögð „varpa fast öndinni“ eða „hrinda mæðilega öndinni", henni er ekki
orðið heitt, hún strýkur ekki um höfuðið. En öll þessi viðbrögð koma fyrir
í fornnorrænum bókmenntum, þar á meðal í Islendingasögum. Þar er
stundum sagt frá því að sál galdramanna fari úr líkama þeirra meðan þeir
sofa, til dæmis í Fóstbrædra sögu, 23. kapítula; í Hdvarðar sögu, 19. kapítula,
og ef til vill í Vatnsdælu, 11. kapítula. Það er því greinilegt að seiðkonan
hefur getað nýtt fullkomlega alla líkamlega og andlega hæfileika sína á öllum
stigum seiðsins sem lýst er í Eiríks sögu. Hvergi er sagt - ljóst eða leynt - frá
algleymi í neinum tilbrigðum þess né frá sálför, né heldur frá afleiðingum
þessara fyrirbrigða. Þessar staðreyndir eru óyfirstíganlegar hindranir á vegi
þeirra sem vilja telja þennan kafla vera norræna hliðstæðu við shamaníska
fundi í Síberíu og annarsstaðar. En hvernig fóru fræðimenn að sem reyndu
samt að túlka frásögn Eiríks sögu á þann hátt?
Ekki ætla ég í þessari stuttu grein að fjalla um allar túlkanir textans; aðeins
þrjár hinar helstu þeirra verða teknar til umfjöllunar: Fyrst vík ég í stuttu
máli að túlkun þeirra Peter Buchholz og Hilda Ellis Davidsons og síðan
nokkru rækilegar að túlkun Dag Strömbácks.
Eins og ég sagði í upphafi þessa máls er Peter Buchholz í ritgerð sinni,
Schamanistische Ziige in der altislandischen Uberlieferung, þeirrar skoðunar
að Þorbjörg lítilvölva sé dæmi um aðalgerðina sem hann kallar „Der
Schamane als Magier“. Þessu til sönnunar vitnar hann í 4. kapítula Eiríks
sögu, en viðurkennir þó að algleymið sé ekki til staðar. Hann gerir samt lítið
úr því, þó að þetta ómissandi sérkenni shamanismans vanti: