Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 62
Rjóðum spjöll í dreyra:
Óhugnaður, úrkast og erótík í Egils sögu':'
JÓN KARL HELGASON
Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig skáldamjöðurinn sé á bragðið. Að
stofni til er hann bruggaður úr hráka goða og Vana. Hrákinn er efniviður
Kvasis en þegar hann lætur lífið er blóð hans bragðbætt með hunangi og úr
verður dýr mjöður. Óðinn drekkur þennan drykk og spýr að nýju. Hann
sendir að vísu suman mjöðinn aftur, hlut skáldfífla, en hráki sem breyst hefur
í blóð, blóðið í mjöð og mjöðurinn í spýju er goðaveig góðskálda sem ljúka
ölgerðinni með því selja upp ágætum skáldskap.
Þessi grugguga forsaga skáldskapariðkunar lýsir grimmilegum drápum.
Dvergarnir Fjalar og Galar myrða Kvasi til að komast yfir blóð hans. Næst
drekkja þeir Gillungi jötni og láta kvernstein falla í höfuð syrgjandi konu
hans, því þeim leiðast óp hennar.1 Loks, þegar Óðinn er kominn á spor
mjaðarins, er frá því sagt hvernig hann er óbeint valdur að dauða níu þræla
sem berjast um hein hans - „skiptust þeir svá við, at hverr brá ljánum á háls
öðrum.“2 En til mótvægis við morðin geymir sagan einnig lýsingar á sköpun,
ástarhótum og griðum. Goð og Vanir spýta saman í dall til að staðfesta sætt
sín á milli og þar sem goðin vilja ekki láta griðamarkið týnast skapa þau
Kvasi þar úr. Síðar, þegar Suttungur Gillungsson ætlar að hefna föður síns
með því að láta dvergana drukkna á flæðiskeri, bjóða Fjalar og Galar
jötninum mjöðinn í föðurgjöld og bjarga þannig lífi sínu. Þá lofar Gunnlöð
Óðni að drekka af miðinum þrjá drykki eftir að hann hefur legið hjá henni í
þrjár nætur.
Því hefur verið haldið fram að Snorri Sturluson hafi mótað goðsögnina
um skáldamjöðinn eftir eigin höfði þegar hann felldi hana inn í Snorra-
Eddu? Hún er engu síður merk lýsing á eðli skáldlegs tungumáls. Sam-
* Ég þakka Dagnýju Kristjánsdóttur, Gísla Sigurðssyni, Jórunni Sigurðardóttur,
Matthíasi Viðari Sæmundssyni og Ólafi Haraldssyni fyrir yfirlestur á „uppkasti“ og
ábendingar. Allir misbrestir skrifast þó, að sjálfsögðu, á minn reikning.
1 Vert er að vekja athygli á hvernig karlarnir, þótt smávaxnir séu, þagga þarna niður í
hinni kvenlegu rödd grátljóðsins. Sbr. óprentaðan fyrirlestur Helgu Kress, „A
Weapers Discourse. Women and Lamentation in Eddic Poetry,“ fluttur á SASS
ráðstefnunni í Amherst, Massachusetts, 2.-4. maí 1991.
2 Edda Snorra Sturlusonar. Guðni Jónsson bjó til prentunar. íslendingasagnaútgáfan,
Akureyri 1954, s. 103.
3 Sjá sérstaklega Robertu Frank, „Snorri and the Mead of Poetry.“ Speculum
Norroenum: Norse Studies in Memory of Gabriel Turville-Petre. Ritstj. Ursula
SKÁLDSKAPARMÁL 2 (1992)
60