Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 66
64
Jón Karl Helgason
og konungs“.10 Torfi H. Tulinius greinir hins vegar bróðurmorð sem eitt
meginþema sögunnar. Hann fellir togstreitu vináttu og konungshollustu að
nokkru undir þá túlkun, þar sem konungurinn verður oft staðgengill
föðurins í bræðrasambandinu. Torfi tengir bræðravígsþemað frásögn Biblí-
unnar af Kain og Abel og sögulegum kringumstæðum íslendinga á þrettándu
öld en getur þess ennfremur að löngunin til bróðurmorðs, samkvæmt Freud,
sé yfirfærð löngun til að drepa föðurinn.11
Ut frá víðara sjónarhorni, fellur þema bróðurmorðsins að sjálfsögðu
undir frásagnarlið drápsins, sem kemur fyrir aftur og aftur í þessari sögu,
eins og reyndar mörgum öðrum íslendingasögum. Þórólfur Kveld-Úlfsson
drepur merkisbera Haralds konungs áður en konungur veitir Þórólfi
banasár. „Þá stóðu á honum bæði sverð og spjót“ (s. 392). Þórólfi Skalla-
Grímssyni vegnar aðeins betur í sömu aðstöðu þar sem hann drepur
merkisbera Hrings jarls og leggur síðan „spjótinu fyrir brjóst jarlinum í
gegnum brynjuna og búkinn svo að út gekk um herðarnar og hóf hann upp
á kesjunni yfir höfuð sér og skaut niður spjótshalanum í jörðina en jarlinn
sæfðist á spjótinu" (s. 435). Þórólfur yngri er þó dæmdur til sömu örlaga og
frændinn. „Aðils jarl og sveit sú er honum fylgdi, brugðu þegar mörgum
kesjum senn á Þórólfi og féll hann þar við skóginn" (s. 437).
í barnæsku rekur Egill Skallagrímsson skeggexi í höfuðið á nafna föður
síns, Grími Heggssyni „svo að þegar stóð í heila" (s. 415). Skömmu síðar
heggur Egill verkstjóra og vin Skalla-Gríms banahögg í eldhúsi (s. 416).
Sömu meðferð fá tveir félagar mannsins sem Egill hjó fótinn af í Sauðaey (s.
421), sem og Aðils jarl í hefndarskyni fyrir drápið á Þórólfi (s. 437). í
Steinssundi rennur skúta Egils hjá skipi Eiríks konungs blóðaxar, Egill skýtur
þá spjóti sínu „og kom á þann mann miðjan er við stýrið sat en þar var Ketill
höður“ frændi konungs (s. 447).12 Skömmu síðar drepur Egill Berg-Onund,
eins og áður var nefnt, en einnig Hadd bróður Onundar og annan frænda
konungs er heitir Fróði. Skýtur Egill kesju sinni að Fróða „og í gegnum
skjöld hans og í brjóstið svo að yddi um bakið“ (s. 451). I víkingaferð með
vini sínum Arinbirni drepur Egill ellefu Frísi sem sækja að honum (s. 476) og
í Vermalandsför drepur hann á þriðja tug manna. Þeirra á meðal eru bræður
sem báðir heita Úlfur, eins og afi Egils (s. 483-86).13 Síðasta verk Egils er að
drepa tvo þræla fyrir tengdasyni sínum, Grími (s. 516-17).
10 „Konungsmenn í kreppu og vinátta í Egils sögu.“ Skáldskaparmdl 1 (1990), s. 89.
11 „‘Bölvað er okkur bróðir, bani em ek þinn orðinn.’ Fornaldarsögur, íslendingasögur
and ideology in thirteenth century Iceland." Óprentaður fyrirlestur fluttur á
ráðstefnunni From Sagas to Society: Comparative Approaches to Early Iceland.
Háskóli íslands, Reykjavík 8.-9. júní 1992.
12 í fyrirlestri sínum færði Torfi Tulinius sannfærandi rök fyrir því að þema
bróðurmorðsins birtist í þessu atriði, þar sem viðurnefni Ketils vísi til goðsögunnar
um Höð blinda er skaut mistilteini að Baldri bróður sínum og drap hann.
13 Einar Pálsson fjallar á athyglisverðan hátt um táknmál Vermalandsfararinnar og
hlutverk úlfa í Eglu, í ljósi fornra goðsagna í bók sinni Egils saga og úlfar tveir. Mímir,
Reykjavík 1990.