Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 82
80
Viðar Hreinsson
samkvæmt hinu hefbundna gæðamati, hátt yfir aðrar sögur frá 14. öld.
Flestar hinar bestu sögur eru taldar frá 13. öld og ein hugsanleg skýring á
gæðum þeirra er sú að við bókmenntalega úrvinnslu hins gamla söguefnis,
sem var svo bundið í vitund manna að ekki var óhætt að hrófla mikið við því,
hafi vandamál samtímans, hinnar róstusömu Sturlungaldar, þrengt sér inn í
verkin og gegnsýrt þau. Höfundar voru að endurgera í sögum fjarlægt líf
forfeðranna, en þeirra eigin samtíð var nálæg, með ágeng vandamál sem
brunnu á, siðferðileg, félagsleg, pólitísk o.s.frv. Þessi ágenga nánd samtíðar-
innar, samfara lýsingum manna sem trúlega hafa lifað nánast sjálfstæðu lífi í
vitund fólks, bjó í haginn fyrir hið rómaða raunsæislega yfirbragð hinna
sígildu sagna frá 13. öld. Meðfram því að koma lífi forfeðranna til skila,
laumuðu menn inn ýmiskonar skírskotunum, ljósum og leyndum, til
samtíma síns.
Grettla fellur því illa inn í hnignunarmynd hinnar hefðbundnu íslensku
bókmenntasögu, hún er skrifuð allt of seint til þess. Hún hefur einkenni
hinnar ágengu nándar, djúpar mannlýsingar, spurningar um vald og siðferði
o.m.fl. en hún hefur líka þessa blöndun sem rætt hefur verið um. Ekki er
grunlaust um að hún sé mun meðvitaðri en í öðrum 14. aldar sögum. Því er
ástæða til að spyrja hvað það sé sem gerir Grettlu svona sérstæða? Er hún
einhver dularfull tímaskekkja eða er þetta hending ein? Býr eitthvað annað
undir, önnur bókmenntaleg lögmál en gilda um aðrar sögur? Ef til vill, hún
er líka skyld sumum fornaldarsögum frá síðari hluta 14. aldar, þar sem
höfundar leika sér meðvitað og gagngert með skáldskaparmöguleika, t.d.
Göngu-Hrólfs sögu og Áns sögu bogsveigis.5 Til þess að svara þessum spurn-
ingum þarf að leggjast í nokkuð ítarlega túlkun á sögunni, tilraun til að
nálgast það sem kalla mætti skáldskaparvitund frásagna.
2. Firring hins skáldlega heims
Það má kalla það skáldskaparvitund í frásögnum þegar höfundur verður
virkur og skapandi á meðvitaðan hátt í stað þess að vera óvirkur miðlari
fyrirfram mótaðs efnis, vinnur úr efninu á sínum eigin listrænu forsendum
og rýfur þar með beina skírskotun til einhvers ytri áþreifanlegs eða sögulegs
veruleika. Þetta er eitt skref í átt til svokallaðrar skáldsöguvitundar, þegar
höfundur skýtur tvíræðni og íróníu á milli verks og veruleika, ummyndar að
eigin geðþótta þann veruleika sem hann lýsir, hann bregður fyrir sig
ólíkindalátum og er ekki lengur þar sem hann er séður.6 Að mati Bakhtins
5 Ég hef fjallað um báðar þessar sögur m.a. með hliðsjón af skáldskaparvitund í
greinunum „Hetjur og fífl í Hrafnistu", Tímarit Máls og menningar, 2. hefti 1990 og
„Göngu-Hrólfur á galeiðunni", Skáldskaparmál I, 1990.
6 Halldór Guðmundsson hefur fjallað um skáldsöguvitund í greininni „Skáldsögu-
vitund í íslendingasögum“, Skáldskaparmál 1,1990.