Skáldskaparmál - 01.01.1992, Qupperneq 88
86
Viðar Hreinsson
verður hlutlausara, nánast hefðbundinn rammi. Þetta hefur verið talin vond
þróun, en svo er þó ekki, því þar kemur hitt atriðið til, höfundurinn verður
virkari og ágengari sem mótandi afl. í þessu felast nær ótæmandi skáld-
skaparmöguleikar. Þegar efnið fjarlægist þekkjanlegan veruleika opnast nýir
möguleikar á að klæða sértækar hugmyndir líki skáldskapar, það er eiginlega
sjálf skáldskapar- eða skáldsöguvitundin sem hér fæðist. Fyrir hinn síðbúna
sagnaritara er frásagnarhefðin og eldri sögur eitthvað sem hann getur skoðað
úr fjarlægð, skopstælt og leikið sér með.17 Hann getur tekið hefðina og notað
til að koma margvíslegum hugmyndum á framfæri. Með orðfæri Ricoeurs
mætti segja að 14. aldar höfundar róti oft nokkuð kröftuglega upp í setlögum
hefðarinnar. Þetta er annað en er á ferðinni í klassískum 13. aldar sögum, því
þær eru enn tiltölulega bundnar af efninu, en höfundar þeirra gátu notfært
sér hliðstæður milli tveggja tíma til að koma á framfæri boðskap til samtíma
síns. En þeir umturnuðu ekki efninu til þess. Hin mímetíska nánd 13. aldar
þrengdi möguleikana á hreinum skáldskap, en kom ekki í veg fyrir
merkingarauka, að merkingarmöguleikar þess efnis sem fyrir hendi var væru
nýttir. Þegar kom fram á 14. öld voru möguleikarnir orðnir allmiklir og afar
þroskuð frásagnarhefð að baki, sem stóð undir góðu verklagi. Þá er jafnvel
hæpið að tala um merkingarauka, heldur frekar þróun í átt til skáldskapar
sem í æ meira mæli hvíldi í sjálfum sér.
114. aldar sögum eru sögumenn eins og áður segir miklu ágengari, þeir
taka opinskárri afstöðu til efnisins og láta jafnvel hinn rómaða hlutlæga stíl
sigla sinn sjó.18 Þarna er einmitt á ferðinni aukin skáldskaparvitund,
möguleikinn á að ummynda efnið í hendi sér í enn ríkari mæli en áður
tíðkaðist. 14. öldin er nýtt blómaskeið í íslenskri sagnaritun, skeið skáld-
skaparvitundarinnar, sem birtist bæði í fornaldarsögum eins og t.d. Ans
sögu bogsveigis og Göngu-Hrólfs sögu og Islendingasögum eins og Króka-
Refs sögu, Finnboga sögu ramma, Hávarðar sögu Isfirðings19 og síðast en
ekki síst í Grettlu. Hér kemur til sögunnar blöndunin sem tíunduð var hér í
upphafi, vilji og geta höfunda til að fella inn í sögur sínar allskyns ný atriði úr
ýmsum áttum á meðvitaðan og virkan hátt, oft til þess að koma einhverjum
boðskap eða hugsun á framfæri. Blöndun var meira og minna tilviljanakennd
í eldri sögum en þegar á leið urðu höfundar sér þess greinilega meðvitaðir að
17 Sbr. Ld. grein Helgu Kress um Fóstbræðrasögu, „Bróklindi Falgeirs“ i hausthefti
Skirnis 1987 og áðumefndar greinar mínar um fornaldarsögur.
18 Sjá t.d. Paul Schach: „Some Forms of Writer Intrusion in the íslendingasögur"
Scandinavian Studies (42) 1970, bls. 128-156. Þar er reyndar aðeins athugað hvernig
höfundur sýnir sig á yfirborði textans, t.d. er bent á að notkun fyrstu persónu er
algengust í elstu og yngstu sögum (greinin er rituð áður en Jónas Kristjánsson yngdi
Fóstbræðra sögu um heila öld).
19 Örnólfur Thorsson og Halldór Guðmundsson fjalla báðir um Hávarðar sögu á
þessum nótum í Skáldskaparmálum I. Halldór í greininni „Skáldsöguvitund í
Islendingasögum", bls. 62-72 og Örnólfur í greininni „Leitin að landinu fagra“, bls.
28-53.