Skáldskaparmál - 01.01.1992, Síða 89
Hver erþessi Grettir?
87
þeir voru að fást við efni af mismunandi uppruna, byggt á mismunandi
vitund. Hér er ákveðin fjarlæging í formi sjálfsvitundar á ferðinni. Höfundar
eru sér meðvitaðir um muninn á eigin tungutaki og annarra og vinna út frá
því þegar þeir laga efniviðinn að ætlun sinni og ekki síður með því að
skopstæla hugmyndir og viðhorf sem birtast í eldri sögum. Það að skrá sögu
er alltaf virk athöfn, en virknin og vitundin ná nýju hámarki í þessum yngri
sögum. Þetta er nýtt mímetískt þrep.
I hugmyndasögulegu ljósi er það sem þarna er á ferðinni afar merkilegt,
umsnúningur á tengslum sjálfsveru (subjekt) og viðfangs (objekt). í grófum
dráttum má segja að í 13. aldar sögunum hafi efnið komið til höfundanna, án
þess að þeir mættu hrófla of mikið við því, viðfangið hafði ákveðið vald
gagnvart sjálfsverunni (höfundinum), í samræmi við það að á miðöldum var
einstaklingurinn aðeins hluti af stærri heild, fjarri því að líkjast hinni
hefðbundnu sjálfsveru nútímans (fyrrverandi!) sem er fyrst og fremst
gerandi. I 14. aldar sögunum er það höfundurinn sem sjálfsvera sem tekur sér
ákveðið vald yfir efniviðnum, það vottar þannig fyrir þeim einkennum sem
ekki urðu ríkjandi í Evrópu fyrr en með upplýsingunni, best orðað af
Descartes og Kant.20
3. Grettla aftur
Hér er ekki rúm til að heimfæra allt túlkunarkerfi Ricoeurs á Grettlu og
bókmenntalegt umhverfi hennar. Það verður að duga að sinni að taka aðeins
einn þátt, mimesis2, sjálfa „skáldunina“, og greina söguna með hliðsjón af
hinum þrem stigum þess þáttar: fléttun söguþráðar, „samræmdri röskun“ og
tvennskonar tíma.
Eins og áður er nefnt er Grettla mun yngri en aðrar sígildar sögur, sem
segja má að séu einskonar endurvinnsla fortíðar, þar sem saman við fléttast
ágeng bókmenntaleg úrvinnsla úr félagslegum, pólitískum og siðferðilegum
vandamálum 13. aldar. Samt er Grettla ágeng eins og hinar sögurnar, eins og
mikið brenni á höfundi. Ef þessi ágengni er hliðarfyrirbæri við hina
mímetísku endursköpun, þá er hér um að ræða verk sem er ágengt þrátt fyrir
að það sé skrifað á tímabili þar sem skemmtisagnaritun réð ríkjum. Það er
því greinilegt að Sturlungaöldin og róstur hennar eru ekki nein nauðsynleg
forsenda fyrir stórvirkjum í sagnagerð. Tilraunir manna til að finna einhverja
frum-Grettlu á 13. öld sýna ljóslega tilhneigingu til að koma öllu sem gott er
fyrir á þeirri öld. Hafi sú frum-Grettla einhverntíma verið til hefur hún í
mesta lagi lagt til einhver efnisatriði, því það er djúpstæður eðlismunur á
Grettlu og öllum sögum frá 13. öld, hún er einfaldlega miklu
„bókmenntalegri". Fyrir utan þau atriði sem tíunduð verða smám saman hér
20 „Ég hugsa, þess vegna er ég“ (Descartes). „Við vitum aðeins það „a priori" um hlutina
sem við leggjum þeim til sjálf“ (Kant).