Skáldskaparmál - 01.01.1992, Síða 92
90
Viðar Hreinsson
atburðarásin krefst af þeim hverju sinni, Kár og berserkirnir í Háramarsey
eru liðir í manndómsvígslu Grettis, Glámur á að vera enn ein karlmennsku-
raunin en stöðvar aftur á móti þroska hans og tröllin í fossinum undirstrika
Gretti sem varðmann og verjanda á mörkum mannheima, hann ver menn-
inguna gegn náttúrunni. Mannlegir andstæðingar eru ýmist skoplegir bjánar
eða sálfræðilega skiljanlegir, en hafa hver sitt hlutverk í atburðarásinni, í
tengslum við æviferil Grettis eða persónu hans.
Hins vegar er atburðarásin markvisst og kunnáttusamlega ofin í þéttan
vef. Deilur Grettis og árekstrar koma í rökréttri stígandi röð þannig að einn
viðburður fæðir af sér annan með nýjum andstæðingum, frá tiltölulega
saklausu hestaati við Odd ómagaskáld til mun alvarlegri deilu við Þorbjörn
öxnamegin. Drápið á Þorbirni tengir þann þátt síðan við útlegðarkaflann,
meðan það eru fyrst og fremst skærur Grettis og Þóris í Garði sem halda
þeim hluta saman. Síðan rennur sagan hægt yfir í lokakaflann í ævi Grettis,
þar sem sterk stígandi verður allt til dauða Grettis. Mörg atriði má finna sem
njörva söguna saman sem heild, eins og t.d. það hvernig þáttur Þorsteins
drómundar er undirbúinn strax og hann er kynntur til sögunnar sem
raddsterkur maður. Forsagan skýrir líka tengsl og frændsemi Grettis við
ýmsar persónur sem síðar koma fyrir, t.d. Ólaf helga, Björn Hítdælakappa
og Þórhall í Tungu.
3.2. Mimesis2, annað stig
Hér eru það fyrst og fremst skapgerð Grettis og sálarlíf sem eru vettvangur
hinnar samræmdu röskunar en einnig siðferði hans, félagsleg tengsl og staða
gagnvart samfélagi sögunnar. Þessi ólíku öfl mætast öll í Gretti og setja mark
sitt á athafnir hans.
Þroski Grettis er þungamiðja atburðarásarinnar framan af. Um er að ræða
sjálfsuppbyggingu í tveim þrepum. Fyrst er sálarkreppa og síðan ofmetnaður
sem nær hámarki í bardaganum við Glám. Glámur stöðvar þroska Grettis og
leiðir hann til þeirrar uppgjafar sem fylgir honum inn í útlegðina. Uppvöxtur
hans einkennist af sjálfsmyndarkreppu, í afbrigði af kolbítsminninu, þegar
drengur kemst í andstöðu við föður sinn en er studdur af móðurinni og
verður loks hetja. Ásmundur vill láta hann vinna og gera hann að heiðar-
legum bónda, en móðir hans gefur honum sverð og hvetur hann til þess að
verða hetja. Hér er lagður grunnurinn að mikilli togstreitu í sálartötri
Grettis. Angist blandin sjálfsvörn brýst ýmist út í heiftúðugri árásargirni eða
ísmeygilegu háði. Hetjuhugur og angist verða virk öfl í uppbyggingu
frásagnarinnar, alltaf er hægt að skoða athafnir Grettis í ljósi þeirra. Hann
nennti heldur ekki að gera neitt fyrir föður sinn og hefndi sín á ögrandi hátt
í hvert skipti sem karlinn fékk hann til að gera eitthvað. Viðbrögð hans
gagnvart öðrum mótast af þessari togstreitu. Hann er árásargjarn gegn þeim
sem eru ógnandi eins og faðir hans (t.d. Skeggi strax í 16. kafla) en