Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 93
Hver erþessi Grettir?
91
vinsamlegur gagnvart þeim sem eru vinsamlegir og hvetjandi eins og móðir
hans (t.d. Hafliði í 17. kafla og fleiri bandamenn síðar í sögunni).26 Kathryn
Hume skilgreinir afstöðu hans til annarra á lítið eitt annan hátt, út frá
þjóðfélagslegri stöðu þeirra og aristókratískum stíl í framkomu við hann.
Þeir sem hafa stíl og samþykkja hetjumóð Grettis öðlast hylli hans.27
Framan af lætur Grettir aðeins til skarar skríða þegar honum er ögrað á
einhvern hátt og leitar ekki frægðar fyrr en eftir að móðir hans gaf honum
sverðið. í bernsku, áður en hann fékk sverðið var hann óglíminn. Fyrsta
vígið sem hann vegur er í einskonar árásargjarnri sjálfsvörn, þegar hann
drepur Skeggja, það hafði í för með sér þriggja ára útlegð í Noregi. Það er
eftirtektarvert að sagan getur þess að mikið sé til af sögum um prakkarastrik
Grettis í uppvextinum, en höfundur hefur þá trúlega valið úr þeim, nóg til að
byggja upp þá sálfræðilegu lýsingu sem leggur grunninn að persónu Grettis,
frekar en að líta svo á að það væri skylda sín að halda öllu til haga sem vitað
var um hann.
Grettir fer til Noregs með sverðið frá móður sinni í hönd, til þess að
verða hetja og það verður hann á sinn eigin hátt, sem sæmir persónu-
einkennum hans. Hann er hlédrægur og ögn undirfurðulegur, hófsamur í
orðum en þó endurspegla tilsvör hans sterkan metnað. Hann er viðkvæmur
undir niðri og vill að hann sé tekinn eins og hann er. Þegar hann hefur slátrað
einum tólf berserkjum í Háramarsey hlýtur hann þakkir og hrós frá konu
Þorfinns, sem þó hafði áður skammað hann fyrir ómennsku og vesaldóm. Þá
svarar hann: „Eg þykist nú mjög hinn sami og í kveld er þér töluðuð
hraklegar við mig.“28
Leikur að misgengi sýndar og reyndar er algengur í 14. aldar sögum.
Grettir er fær um að leika sér með ásýnd sína og sjálfsmynd, leyna
hugsunum sínum og ætlunum, eins og þegar hann drepur þessa berserki.
Síðar kemur þetta meðal annars fram í dulargervum ýmiskonar. Grettir
stenst nú ýmsar mannraunir, hlýtur frægð og fé og stendur rækilega uppi í
hárinu á Sveini jarli. í þessum meðbyr er hann í þokkalegu sálrænu jafnvægi,
og er byrjaður að sækjast eftir frægðinni.
Þá eftirsókn er hægt, eftir að hann er kominn heim, að dæma í
siðferðilegu ljósi þannig að hið siðferðilega blandast hinu sálfræðilega.
26 Robert Cook hefur bent á þessa tvíræðni í greininni „The Reader in Grettis saga“,
Saga-Book vol. XXI parts 3-4, London 1984-5, bls. 136. Cook ritar grein sína frá
sjónarhorni viðtökurannsókna eða „reader-response criticism" og setur sig í spor
upplýsts nútímalesanda. Niðurstaðan er svipuð og hér er á ferðinni um afar sterka
tvíræðni í lýsingu Grettis. Cook sýnir fram á að í sögunni sé sífellt verið að ögra
væntingum viðtakandans svo manni koma ósjálfrátt í hug fræg orð úr skáldsögu
Guðbergs Bcrgssonar um hænuhaus lesandans.
27 Sjá Kathryn Hume „The Thematic Design of Grettis Saga“.Journal of English and
Germanic Philology, (73) 1974, bls. 470 o.áfr.
28 Grettis saga, 19. kafli bls. 984. Ég styðst við útgáfu Svarts á hvítu 1987 og vísa
eftirleiðis í þá útgáfu.