Skáldskaparmál - 01.01.1992, Qupperneq 94
92
Viðar Hreinsson
„Sjálfsuppbygging" Grettis, eða sú sjálfsmynd sem hann mótar, er orðin að
sjúklegri áráttu sem um leið er siðferðilega ótæk, í líki ofmetnaðar. Svipaður
samleikur siðferðis og sálarflækju kemur víðar fyrir hjá öðrum persónum.
Þorbjörn öxnamegin drepur Atla vegna afbrýðisemi, það er siðferðilega
ótækt. Og Þorbjörn öngull, sem á margan hátt er hliðstæður nafna sínum,
verður smátt og smátt æstari og sjúklegri í tilraunum sínum til að koma
Gretti fyrir kattarnef. Það er örvænting hans sem fær hann til þess að leita
liðsinnis fóstru sinnar. Við dráp Grettis er hann fullkomlega trylltur,
sjúklegur og að því kominn að brotna saman. Eftir það hefur hann brotið
allar brýr að baki sér og er orðinn siðferðilega gerspilltur, sem hann var ekki
í byrjun.
Sjálfsuppbygging Grettis er við heimkomuna orðin að eyðandi áráttu,
þegar hann æðir um sveitir og slæst ýmist við friðsama bændur eða ofstopa-
fulla ruglukolla til þess að reyna karlmennsku sína. Hér er sögumaður
greinilega orðinn gagnrýninn í garð Grettis: „Þá gerðist ofsi Grettis svo
mikill að honum þótti sér ekki ófært.“ (28. kafli, bls. 996) Afstaða sögu-
manns er þar að auki írónísk, þegar Grettir kemst þrásinnis í spaugilegar
aðstæður þar sem ofmetnaður hans er beinlínis hlægilegur. Hann er einn og
einangraður í leit sinni að mannraunum, það undirstrikar hina siðferðilegu
hlið sögunnar og boðar einsemd útlegðarinnar. Grettir er ekki tvíræður
þegar hér er komið sögu, klofinn milli metnaðar og hlédrægni eins og áður,
heldur hefur ofmetnaðurinn fullkomlega útrýmt hlédrægninni. Hann glottir
ekki undirfurðulega, heldur leitar aðeins eftir mannraunum. Tvisvar er það
sviðsett eftirminnilega á mjög sjónrænan hátt þegar Grettir er aleinn daglangt
að rembast við að lyfta grjóti, setja styrk sínum sýnilega minnisvarða. Hann
fer yfirleitt háðulega út úr leit sinni og tekst ekki að drepa svo mikið sem
einn vesaling.
Það er þessi leit sem leiðir Gretti loks í glímuna við Glám, þegar auga-
steinarnir koma í staðinn fyrir Grettistökin. Hægt er að skoða Glám sem
siðferðilegan refsivönd, álög hans stöðva þroska Grettis. Þannig ummyndar
síðasta og stærsta hetjudáðin, í þessum hluta sögunnar, Gretti úr sagnahetju
í lifandi goðsögn. Goðsögn í merkingunni miðlun á milli manns og náttúru,
einkum hins yfirnáttúrlega.29 Goðsagnir setja fram skarpar andstæður, t.d.
milli menningar og hinnar villtu náttúru, og miðla á milli hinna andstæðu
skauta með verum sem bera í sér eðli beggja.30 Grettir verður tengiliður á
milli menningar og náttúru, hann fer jafnt um mannheima sem hinn villta
heim náttúrunnar, á hálendinu meðal jötna. Um leið verður Grettir
goðsagnakenndur verjandi fólksins gagnvart náttúrunni, „honum var mjög
lagið að koma af reimleikum eða afturgöngum“ (64. kafli, bls. 1055). Þegar
29 „Grettir er aðeins að hálfu mennskur - að hinu leytinu er hann vættur, hluti þeirrar
mögnuðu náttúru sem hann hafðist við í, tröllsleg táknmynd íslensku öræfanna" segir
Guðmundur Andri Thorsson í áðurnefndri grein í Skáldskaparmálum I.
30 Sbr. goðsagnakenningar Claude Lévi-Strauss.