Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 101
Hver erþessi Grettir?
99
hinn þrönga sjóndeildarhring bændasamfélagsins er það að skagfirskir
bændur vildu losna við Gretti vegna þess að hann át rollurnar þeirra í
Drangey sem var matarforðabúr þeirra. Það er reyndar afstaða bændanna allt
útlegðartímabilið og skerpir hina sterku móthverfu milli hetjuhugsjónanna
og bændasamfélagsins. „Hann getur einfaldlega ekki lifað í friði við venjulegt
samfélag."36 Fyrst varð að ummynda Gretti, úr sagnahetju í útlaga, lifandi
goðsögn, og þá varð að drepa hann af praktískum ástæðum svo hann gæti
risið upp aftur sem hrein goðsögn.
Þroski Grettis er til vandræða allt frá byrjun, gagnstætt þroska t.d. Egils,
sem stefnir beint á átt að takmarkinu sem er valdsmaðurinn, sá sem getur
gert það sem honum sýnist og gengið í berhögg við allt og alla. Uppvöxtur
þeirra er hliðstæður, erjur við föðurinn, stuðningur og hvatning móðurinnar
og manndráp á leiðinni inn í hetjuheiminn og báðir þurfa að lúta í lægra haldi
fyrir sér eldri strákum.37 Þykkar höfuðskeljar þeirra hafa einnig merkingu,
þannig að það er freistandi að ímynda sér að höfundur Grettlu gjói augunum
til Eglu, meðvitaður um það að Grettir gæti aldrei orðið eins og Egill vegna
þjóðfélagslegra aðstæðna. Gretti er oft líkt við aðrar hetjur íslendingasagna,
meðan Agli er aldrei líkt við neinn. Það var engin ástæða til þess í kringum
1230 að stöðva valdamann á braut sinni, hann hafði heldur engar
bókmenntalegar fyrirmyndir eins og þær sem Grettir þurfti að burðast með.
Líkindin við Egil sýna meðvitaða afstöðu höfundar til hefðarinnar.
Það sem gerist með Gretti er að sagan stöðvar hann, því bændasamfélagið
getur ekki leyft slíka hetju. Þegar hann á ofmetnaðartímabilinu er orðinn að
hetju, er engin sögusamúð, öllu heldur háðsk írónía í afstöðu söguhöfundar
til Grettis, eins og sjá má í mörgum athugasemdum. Söguhöfundur leikur
nánast tveim skjöldum, villir á sér heimildir rétt eins og Grettir sjálfur.
Tilsvör Grettis sýna ekki aðeins skort á sálrænu jafnvægi, hann kemur
jafnvel fyrir sem hálfbrenglaður rugludallur, sem þó hefur lag á því að halda
ró sinni á ytra borði.
Söguhöfundur leikur að misgengi sýndar og reyndar með fulltingi
tvíröddunar, þegar fléttað er saman tungutaki tvegggja eða fleiri í sömu
setningu án þess að það sé auðkennt með greinarmerkjum.38 Það sést best
þegar Grettir berst við nokkra ójafnaðarseggi, eftir að hafa verið að bjástra
daglangt við stórgrýti:
Hann fékkst lengi um daginn við að hefja steininn og dvaldi svo þar til er þeir
Kormákur komu. Grettir sneri til móts við þá og hlupu af baki hvorirtveggju.
Grettir sagði að frjálsmannlegra vneri nú ad höggva sem stierst heldur en herjast
með stöfum sem förumenn. Kormákur bað þá verða við mannlega og duga sem
best. (30. kafli, bls. 1001)
36 Hume, bls 472.
37 Sjá áðurnefnda grein Roberts Cook, bls 139.
38 Sbr. Bakhtin, The Dialogic Imagination, bls. 301-366.