Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 102
100
Vidar Hreinsson
Sögumaður tekur orð Grettis, þau sem eru skáletruð hér að ofan, inn í
beina frásögn sína og við það sér lesandinn þau í skoplegu ljósi, ekki síst
vegna þess að í þessum hluta sögunnar er afstaðan til Grettis vægast sagt
írónísk. Þannig er í þessu tilsvari leikið með tvíræðnina, lesandinn sér Gretti
sem ofstopasegg, meðan hann lítur á sjálfan sig sem hetju. Þetta tilsvar og enn
frekar ýmsar háðskar og tvíræðar athugasemdir söguhöfundar sýna hve
miklu ágengari hann er en söguhöfundar eldri sagna sem alltaf voru í feluleik.
Ágengni af þessu tagi er eitt helsta einkenni margra 14. aldar sagna og sýnir
fyrst og fremst hina auknu skáldskaparvitund, sem hvílir á nýfengnu valdi
höfunda á tungutaki og hefð.
Tvíræðni söguhöfundar nær hámarki þegar Grettir leitar Auðun á
Auðunarstöðum uppi, til að hefna fyrri ófara. Irónísk afstaða hans kallast á
við sjúklegan ofmetnað Grettis, en þó er mikilvægust andstæðan milli
bændaheimsins og hetjunnar sem ríður um sveitir í steindum söðli:
Grettir kom nú það í hug að hann þóttist hafa orðið varhluta fyrir Auðuni að
knattleiknum sem áður er sagt og vildi hann prófa hvor þeirra meira hefði við
gengist síðan. Af því gerir Grettir heiman ferð sína á Auðunarstaði. Það var um
öndverðan sláttutíma. Grettir barst á mikið og reið í steindum söðli mjög vönd-
uðum er Þorfinnur gaf honum. Hann hafði góðan hest og vopn öll hin bestu.
Grettir kom snemma dags á Auðunarstaði og drap á dyr. Fátt var manna
heima. Grettir spurði hvort Auðunn væri heima. Menn sögðu að hann væri
farinn til sels eftir mat. Grettir hleypti beisli af hesti sínum. Túnið var óslegið og
gekk hesturinn þangað sem loðnast var. Grettir gekk til skála og settist niður á
setstokkinn og síðan sofnaði hann.
Litlu síðar kom Auðunn heim. Hann sá að hestur var í túninu með steindum
söðli. Auðunn bar mat á tveimur hestum og bar skyr á hesti og var það í húðum
og var bundið um fyrir ofan. Það kölluðu menn skyrkylla. Auðunn tók af
hestum og ber inn skyr í fangi sér. Honum var myrkt fyrir augum. Grettir rétti
fótinn fram af stokkinum og féll Auðunn áfram og varð undir honum
skyrkyllirinn og gekk af yfirbandið. Auðunn spratt upp og spurði hvað skelmi
þar væri. Grettir nefndi sig.
Auðunn mælti: „Þanninn var óspaklega farið eða hvert er erindi þitt?“
„Eg vil berjast við þig,“ segir Grettir.
„Sjá mun eg fyrst ráð fyrir mat mínum,“ sagði Auðunn.
„Vel má það,“ segir Grettir, „ef þú mátt eigi öðrum mönnum að því hlíta.“
Auðunn laut þá niður og þreif upp skyrkyllinn og sletti framan í fang Gretti
og bað hann fyrst taka við því er honum var sent. Grettir varð allur skyrugur.
Þótti honum það meiri smán en þó Auðunn hefði veitt honum mikinn áverka.
Síðan réðust þeir á og glímdu heldur sterklega. Sækir Grettir með ákefð en
Auðunn fer undan. Finnur hann þá að Grettir hefir dregið undan honum.
Gengur upp allt það er fyrir þeim verður og rekast þeir víða um skálann. Sparði
hvorgi af en þó verður Grettir drjúgari og fellur Auðunn að lyktum. Hann hafði
slitið öll vopnin af Gretti. (28. kafli, bls. 997-8)
Þannig er staðan, Grettir vopnlaus og allur skyrugur þegar Barði Guð-
mundsson kemur, skilur áflogahundana og hirtir Gretti eins og smástrák.
Bardaginn minnir reyndar ögn á viðureignina við Glám síðar í sögunni.