Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 103
Hver erþessi Grettir?
101
Loks mætti nefna varðandi vald höfundar á tungutaki, hversu leikandi létt
honum tekst að laga orðfæri Grettis að aðstæðum. Orðskviðir Grettis er ein
hlið þessa, en hæst rís þessi list sögunnar þegar Grettir villir á sér heimildir,
t.d. í Háramarsey þegar hann leikur á berserkina. Þar má segja að
söguhöfundur útsetji þrjár raddir, hina írónísku rödd sögumanns, einfeldni
berserkjanna og ísmeygilega kænsku Grettis. Slík leikandi röddun við
svipaðar aðstæður er nánast óhugsandi í eldri sögum, þar er tungutakið
stífara og einsleitara, t.d. í þætti Kaupa-Héðins í Njálu.
Grettir er hetja í ofmetnaðarhluta sögunnar en hetjuna þarf að stöðva, því
það er ekki pláss fyrir hana. Bændaumhverfið ríkir í sögunni af Glámi,
Glámur er eiginlega afurð bændaumhverfisins, draugasaga bændanna og
þess vegna nothæfur til þess að stöðva Gretti. Um leið leitar Grettir að
takmörkum sínum og þannig gengur hann af fúsum og frjálsum vilja,
studdur af eigin ofmetnaði, inn í útlagagoðsögn bændasamfélagsins. Það er
hin sálræna lýsing Grettis sem gerir bardagann harmrænan, því samúðin með
honum hverfur aldrei alveg. Grettir, siðferðilegur og sálrænn maður með
frjálsan vilja, hittir fyrir þjóðfélagsleg mörk. Hetjan og goðsögnin mætast
hér, það eru örlög Grettis og harmleikur, þess vegna er samúðin með honum
endurreist. Það er ekki siðferðilega forkastanlegt að berjast gegn ógnandi
ófreskjum, þótt ofmetnaður sé ótækur. Höfundur snýst aldrei alfarið gegn
Gretti, heldur leikur með samúð lesandans þangað til við honum blasir
samsett og þversagnakennd mannlýsing eins og Robert Cook bendir á í
lokaorðum greinar sinnar um Grettlu:
But if some of the arguments in this essay are acceptable, the reader will have put
togethér from the many confusing perspectives on Grettir a fairly coherent
picture by the end of Chapter 46: of a truly extraordinary man who is more
sinned against than sinning as he seeks to put his talents to appropriate use,
whose arrogance is little more than justifiable self-confidence, who displays
more patience and forbearance than the overbearing men with whom he is
compared, and whose bad luck derives largely from the malice of lesser men
jealous of his ability. (Saga Book XXI, bls. 152)
Hin samsetta mannlýsing og skopstælingin vega jafnt og haldast í hendur.
Af því stafar hin margræða dýpt sögunnar.
Bændasamfélagið hefur enga þörf fyrir hetjur, en það þarfnast
útlagagoðsagnarinnar, sem uppfyllir ákveðnar þarfir. Grettir er ekki „social
bandit“ eins og Hrói Höttur, hann er varðmaður á ystu mörkum
samfélagsins, gagnvart óhugnaði hinnar villtu náttúru. Sem varðmaður á
þessum mörkum er hann arftaki hinnar indóevrópsku hetju, Bjólfs, Sigurðar,
Heraklesar, Þeseifs, Þórs, Indra o.fl. í staðinn fyrir hina félagslega pólitísku
söguhetju.39 En hann er einnig útlagi, brottrekinn úr mannlegu samfélagi
enda óvæginn við smábændur. Allt þetta, hetjumetnaður Grettis, takmörk
39 Óskar Halldórsson: „Goðsögnin um Gretti,“ bls. 629 o.áfr.