Skáldskaparmál - 01.01.1992, Qupperneq 104
102
Viðar Hreinsson
hans, útlegðin og þröngir rammar bændasamfélagsins er samanþjappað í
þessum hluta sögunnar, einkum sviðsetningu viðureignarinnar við Glám og
ræðu hans. Með umhverfislýsingunni er sviðið táknrænt víkkað til þess að
hafa alheimsgildi. Metnaðurinn eða hrokinn verða við bölvun Gláms að
endimörkum, óumflýjanlegri, örlagabundinni óhamingju, brottvísun úr
mannlegu samfélagi, angist, einsemd og loks dauða. Þannig er þema
sögunnar, hinni tímanlegu en ókrónólógísku vídd, þjappað saman í ræðu
Gláms:
„Mikið kapp hefir þú á lagið Grettir," sagði hann, „að finna mig en það mun eigi
undarlegt þykja þó að þú hljótir ekki mikið happ af mér. En það má eg segja þér
að þú hefir nú fengið helming afls þess og þroska er þér var ætlaður ef þú hefðir
mig ekki fundið. Nú fæ eg það afl eigi af þér tekið er þú hefir áður hreppt en því
má eg ráða að þú verður aldrei sterkari en nú ertu og ertu þó nógu sterkur og að
því mun mörgum verða. Þú hefir frægur orðið hér til af verkum þínum en héðan
af munu falla til þín sektir og vígaferli en flest öll verk þín snúist þér til ógæfu og
hamingjuleysis. Þú munt verða útlægur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt.
Þá legg eg það á við þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir
og mun þér erfitt þykja einum að vera. Og það mun þér til dauða draga." (35.
kafli, bls. 1010-11)
Hér er á ferðinni það sem Páll Skúlason kallar miklun, þegar eitt atriði,
ein sviðsetning fær svo aukið vægi að það felur í sér þungamiðju sögunnar í
heild.40 Þá eykst vægi hins myndræna áss sögunnar, en Páll talar einmitt um
tvo ása hverrar frásagnar, tímanlegan og myndrænan. Það minnir á hugmynd
Ricoeurs um tvennskonar tímanleika hverrar frásagnar, þegar merking og
hugsun rjúfa tímanlegt línulag söguþráðarins.
Hin skörpu og skyndilegu mörk sem Glámur setur Gretti helgast af
nándinni milli sagnaheimsins og hins raunverulega lífheims á ritunar-
tímanum, þ.e. 14. öld. Draugasaga bændasamfélagsins sem stöðvar Gretti
kemur í veg fyrir að hann nýti þá þroskamöguleika sem honum voru ætlaðir
vegna þess að þetta samfélag rúmar ekki hetju. Með orðum Stephans G.
Stephanssonar: „því reimleiki aldar hans að honum fór, / það illfylgjur
tímanna vóru (Andvökur I, bls. 400). Það er í samræmi við andstöðu hans
gegn bændasamfélaginu og undirstrikar nauðsyn á tilfærslu í tíma og rúmi ef
hetjusagan á að enda vel. I þeim skilningi er hin mímetíska nánd tekin til
meðferðar í Grettlu, bilið á milli bókmenntahefðar og samfélags.
Glámur er mynd bændasamfélagsins af hinni villtu náttúru og í þeim
skilningi sigrast náttúran á Gretti, nær tökum á honum. Með ummynduninni
úr hetju í goðsögn miðlar Grettir á milli menningar og náttúru, hann er hluti
beggja. Áður var umhverfið, þar með talin náttúran, viðfangsefni Grettis,
hann var gerandi, en nú snýst það við, þegar hann verður nánast hluti
40 Páll Skúlason: „Hugleiðingar um heimspeki og frásagnir", Pælingar, Reykjavík 1987,
bls. 25-47. Ritgerðin birtist áður í Skírni, 155. árg. 1981.