Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 106
104
Viðar Hreinsson
his vigorous and challenging life, and his laudably Christian death. (Hume, „The
Thematic Design..." bls. 479)
Það má vel taka undir þetta og ekki verður sannað að ætlun höfundar hafi
verið meiri en þessi. En harmræn ævi Grettis er áhrifaríkari en svo að maður
geti látið gæfusaman staðgengil nægja sem heildarniðurstöðu sögunnar. Hið
félagslega samhengi hefur enn mikið til málanna að leggja og á sinn þátt í
harmleiknum. Hér, í lokaþættinum, er um að ræða tilfærslu í atburðarásinni,
nú þegar endanlega er búið að koma Gretti fyrir sem almennilegri goðsögn.
Það var ekki rúm fyrir hefnd á íslandi því tími hetjanna og hefndanna er
liðinn. En til þess að svara kröfum hefðarinnar þarf að hefna svo mikilsháttar
hetju eins og Grettis og það er aðeins hægt með því að flytja atburðarásina
inn í fullkomlega framandi rými. Hin nýja hetjugerð er einmitt
fornaldarsagnahetjan, eða öllu heldur hetja rómönsunnar, sem ferðast um
framandi, abstrakt tíma og rúm.42 Bændasamfélagið var staðnað og hafði
ekki lengur þörf fyrir að endurgera fortíðina í frásögnum sem um leið
fengust við vanda samtímans. En það hafði stöðugt þörf fyrir skemmtun,
menn héldu áfram að segja sögur, bara á nýjan hátt. Grettla byrjar sem
endurgerð fortíðar og endar sem skemmtun. Atburðarásin endar í steini,
hinni fullkomnu stöðnun og uppgjöf og í því sambandi má túlka tilvitnuð
orð Sturlu á írónískan hátt, þegar hann telur það merkilegt að Grettis hafi
verið hefnt í Miklagarði. Um leið og Grettir er endurreistur sem goðsögn, er
atburðarásinni skotið burt frá heimi athafna og þjáninga, hinni áþreifanlegu
og ágengu nánd sem einkennir íslendingarsögurnar og Grettir ferðaðist um,
inn í framandi heim.
Oll atburðarásin er því marki brennd að hin krónólógíska tímaröð er
trufluð, annars vegar af ágengri söguvitund höfundar og djúpum skilningi á
þjóðfélagslegum aðstæðum, hins vegar af sterkri málkennd hans, getu til þess
að láta hugmyndaátök samtímans endurspeglast í röddum sögunnar.
Höfundur Grettlu dregur fram sterka sögulega vídd með því að sýna fram á
tímaskekkjuna í lífi og persónu Grettis. Furðulega margvísleg öfl takast á í
huga hans, og það eru þau átök sem gera söguna „fylgjanlega", ekki síst
vegna þess að Grettir er umfram allt mannlegur. Söguvitundin og
tímaskekkjuþemað brjótast upp á yfirborðið í ágengni sögumanns,
írónískum athugasemdum hans og þegar hann þrengir sinni eigin íróníu inn
í tilsvör Grettis, eða gæðir þau viðbótartóni jafnvel með smæstu orðum eins
og „þó“.
42
Um samtvinnað hlutverk tíma og rúms má lesa í ritgerð Bakhtins, „Forms of Time
and of the Chronotope in the Novel“, í The Dialogic Imagination, einkum bls.
85-110.