Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 108
106
Viðar Hreinsson
þáttur í harmleik hans, hann vill verða saga, að af sér gangi sögur, eins og
minnisvarðar, líkt og af öðrum hetjum. Sagan sem slík er fyrst og fremst að
draga þessa hetjuhefð í efa, sýna fram á haldleysi og tímaskekkju hugmynda
hennar. Sjálfsmynd hetjunnar er í molum en um leið ríkir þversagnakennt
jafnvægi milli skopstælingarinnar annars vegar og mannlýsingarinnar hins
vegar. í því jafnvægi rís list sögunnar hæst, þegar uppsöfnuð lífsgildi margra
kynslóða komast í þrot og steypast yfir umkomulausa hetju líkt og gerðist
með don Kíkóta röskum tveim öldum síðar.43
Þessi einkenni á list Grettlu sem hér hafa verið tíunduð, eiga m.a. rætur í
getu höfundar til að skoða viðfangsefni sitt og hefðina að baki því úr þeirri
fjarlægð sem skerpir skilning, auk þess sem hin mállega vitund er á háu stigi.
í Grettlu hefur tekist að blanda saman ótal óskyldum þáttum og fella saman
í heilsteypta og samstæða frásögn, þar sem allt er sveigt undir heildarhugsun,
en ekki hrært saman án þess að hrófla við efni og stíl hvers þáttar. Þessi
heildarhugsun samþættingar breiðist út í máttugri og margslunginni sögu.
Það er aðeins hægt vegna þess að sá sem þar hefur um vélt þekkir út í æsar
frásagnarhefðina, hefur gagnrýna afstöðu til hennar og þess hugmyndaheims
sem að baki henni lá. Hann var ekki að skrifa inn í hefð, nema að mjög
takmörkuðu leyti. Hann var að skrifa með hefð til hliðsjónar, til þess að
koma einhverju allt öðru til skila en yfirleitt tíðkaðist. Hugmyndalega séð er
sagan útleitin, hún dregur gildi og hugmyndir í efa, hún tekur til sín það sem
hún hefur not fyrir úr setlögum hefðarinnar, vinsar úr þekktu söguefni og
bætir við nýju eftir þörfum, til að fjalla um mannlega tilveru og skilyrði
hennar á nýjan hátt. En vera má að um leið hafi hún rekið endahnútinn á
nærri 200 ára bókmenntahefð.
43 Sbr. orð Guðmundar Andra Thorssonar: „Grettir er svo umkomulaus hetja að helst
verður til don Kíkóta jafnað;..." Skáldskaparmál I, bls. 116.