Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 111
Var Sturla Bárðarson höfundur Gísla sögu
109
Ekki er vitað hvað dreif á daga Sturlu Bárðarsonar næstu árin eftir að
hann bjargaðist úr hríðinni ásamt Guðmundi Arasyni og förunautum hans
haustið 1201. Næst hittum við hann fyrir í för með Hrafni Sveinbjarnarsyni
og Tómasi Ragnheiðarsyni laust fyrir 1208 þegar þeir fara til fundar við
Þorvald Vatnsfirðing að beiðni hans á þann bæ í Dýrafirði er að Granda
heitir. Af lýsingu Hrafns sögu á fundi þeirra er helst að skilja að Þorvaldur
hafi ætlað að ráða Hrafn af dögum, en hikað við þegar á átti að herða.
‘Þorvaldi varð ekki að orðum við Hrafn og þótti honum það undarlegt og
eigi sá hann erindi við sig í því sinni’.5 Segja má að á þessum fundi snúist forn
vinátta Hrafns og Þorvalds í fullan fjandskap og samkvæmt sögu Hrafns olli
Þorvaldur þar mestu eða öllu um.
Allt bendir til að Sturla Bárðarson hafi verið heimamaður Hrafns á Eyri í
þann tíma þegar sundurþykki Hrafns og Þorvalds óx með ári hverju. Vorið
1210 fór Þorvaldur að Eyri með flokki miklum. Hrafn bjóst til varnar og
vopnaði sína menn. ‘Þorvaldur bar eld að húsum og kveikti fyrir þeim
durum er honum þótti minnst vörn fyrir vera og í þekjunni víða. En þeir er
inni voru báru vatn og sýru í eldinn og slökktu sem þeir máttu’.6 Hrafni og
mönnum hans tókst að varna því að Þorvaldur gæti brennt bæinn þar til
þeim barst liðsauki svo að Þorvaldur sá sitt óvænna og urðu málalok þau að
Þórður Sturluson skyldi gera um mál þeirra. Ekkert var gert um mál þeirra á
þingi um sumarið. Næsta vetur urðu nýjar viðsjár með Hrafni og Þorvaldi út
af hvalreka á Ströndum. Hrafn leitaði ráða Halls Gissurarsonar, mágs síns, og
Þorvalds bróður hans, ‘hversu hann skyldi þetta mál leiðrétta við Þorvald.
En þeir lögðu það til að hann byggi mál til á hendur Þorvaldi og þeim
mönnum er neytt höfðu af hvalnum til Dýrafjarðarþings’. Hrafn fór að
ráðum þeirra. ‘Sturla son Bárðar Snorrasonar og Þórdísar Sturludóttur hafði
mál á hönd Þorvaldi’. Hann var dæmdur sekur skógarmaður og níu menn
aðrir. Sumarið eftir reið Þorvaldur til þings með fjölmenni, en Hrafn fór
ekki, heldur fór Sturla Bárðarson til þings fyrir hönd Hrafns og var í flokki
Þórðar Sturlusonar frænda síns. ‘Sturla segir til sektar Þorvalds og þeirra
manna sem sekir höfðu orðið um hvalmálið’.7
Þorvaldur Vatnsfirðingur lét þessi málalok ekki á sér festa, heldur dró að
sér mikið lið og hélt til Eyrar, en Hrafni barst njósn og lét safna liði. Að auki
hafði hann látið gera virki um bæ sinn svo að Þorvaldur hikaði við að ráðast
til atlögu. Brátt dreif lið að Hrafni svo að hann hafði þrefalt fleirum á að
skipa en Þorvaldur. Nokkrir hvöttu Hrafn að ganga nú milli bols og höfuðs
á Þorvaldi, en Hrafn vildi ekki. Lauk svo að sættir tókust og skyldu
Þorvaldur Gissurarson og Þórður Sturluson gera um mál þeirra öll.
Þorvaldur Vatnsfirðingur kom ekki til sáttafundar við Hrafn í Reykholti
vorið 1212 eins og kveðið hafði verið á um. Um haustið boðaði Þórður
5 Sturlunga I, 233.
6 Sturlunga I, 236.
7 Sturlunga I, 238.