Skáldskaparmál - 01.01.1992, Síða 114
112
Aðalgeir Kristjánsson
Sturlu og bað hann þar að sækja, ‘kvað þar vera merkið, vopn Tuma bróður
hans’. Sturla særði Aron í andliti og menn hans yfirbuguðu hann án þess að
veita honum ólífisund. Eyjólfur Kársson fann hann og barg lífi hans með því
að bera hann út í bát og ýta frá landi, en hindraði eftirför Sturlu og manna
hans með því að gera ferjur óhaffærar og veita viðnám með vopnum meðan
hann gat. Hann gaf Aroni og förunautum hans það ráð að taka ekki land
fyrir vestan Tjörnes.15Aron var sár og kumlaður mjög. Fór hann seinlega
austur í fjörðu. Þegar til Svínafells kom leit svo út að Ormur Svínfellingur
mundi láta drepa hann vegna vinfengis við Sturlu Sighvatsson, en Þórarinn
bróðir Orms, er verið hafði í Grímsey, gerði þá fyrirætlun að engu með því
að hóta að ganga til liðs við Aron og verja hann. Þess er getið sérstaklega að
Aron lét eftir á Svínafelli ‘hjálm og brynju Tumanaut’, en fór með saxið.16
Frá Svínafelli fór Aron vestur sveitir og allt til Rauðamels til föðurbróður
síns og móður. ‘Þaðan fór hann vestur á Eyri í Arnarfjörð og tóku
Hrafnssyni við honum. Guðmundur Ólafsson var með honum þá, er síðan
var að brennu Þorvalds’.17
Nú víkur frásögninni til Reykholts í Borgarfirði. Þar getur að finna
Sturlu Bárðarson heimilismann hjá Snorra móðurbróður sínum. ‘Var hann
mikill óvin Þorvalds [Vatnsfirðings] og kærði það oft fyrir Snorra’.18
Hér verður að nefna til sögu Bárð, bróður Þorvalds Vatnsfirðings, og
árekstra sem urðu með honum og Jónssonum. Þeir voru synir hálfsystur
Snorra Sturlusonar. Var með þeim frændum allkært.
Ríkur þáttur í eðli Vatnsfirðinga var að vera mjög fyrir kvennaást og létu
sér fátt fyrir brjósti brenna til að koma vilja sínum fram. Svo bar til um þetta
leyti að Bárður, bróðir Þorvalds Vatnsfirðings, gat barn við konu Bergþórs
Jónssonar á Breiðabólstað í Steingrímsfirði, en hann eirði því illa og svo
bræður hans og leituðu til Snorra Sturlusonar. Hann taldi að þeim mundi
veitast erfitt að rétta hlut sinn við Bárð þar sem Þorvaldur sæti yfir hvers
manns hlut vestur þar. ‘En er þeir heyrðu þvílík orð fylltust þeir af fjandskap
við Þorvald og var mest undir að Sturla Bárðarson’.
Jónssynir söfnuðu að sér nokkrum mönnum til að fara að Þorvaldi, en
Sturla Bárðarson kom frá Snorra til liðs við þá og fjórir menn með honum.
Þeir komu Þorvaldi að óvörum þar sem hann lá í lokrekkju og hafði hjá sér
frillur tvær, en hljóp upp er hann varð var við ófriðinn og kastaði yfir sig
kvenskikkju til að dulbúast, en fleygði henni af sér og komst undan í skjóli
myrkurs til bæjar í nágrenninu þar sem hann fékk föt. Eftir Vatnsfjarðarför
fóru Jónssynir á fund Hrafnssona á Eyri og fóru þeir og Oddur Álason,
mágur þeirra, ásamt Jónssonum að nýju að Þorvaldi, en hann gekk aftur úr
greipum þeirra. Hrafnssynir og Jónssynir urðu ekki á eitt sáttir hvernig haga
15 Sturlunga I, 277.
16 Sturlunga I, 279.
17 Sturlunga I, 279.
18 Sturlunga I, 279.