Skáldskaparmál - 01.01.1992, Síða 115
Var Sturla Báröarson höfundur Gísla sögu
113
skyldi frekari aðgerðum gegn Þorvaldi og lauk svo að hverjir fóru sína leið,
Hrafns synir vestur á fjörðu, en Jónssynir á Reykjanes.
Þriðja aðförin var gerð að Þorvaldi um haustið 1222 að frumkvæði
Jónssona. Þeir höfðu nær þrjá tigi manna og riðu flestir en umrenningar
gengu. Aðförin misheppnaðist því að Þorvaldur sat fyrir þeim með meira lið.
Jónssynir köstuðu um hestum sínum og bað Ingimundur þá ríða í fjall upp
og riðu undan sem mest þeir máttu, en Þorvaldur drap nokkra menn úr
flokki þeirra.19
Þess er ekki getið beinlínis að Sturla Bárðarson hafi verið í flokki
Jónssona í þetta skipti, en eðlilegast er að skilja vísu eftir hann um þessa
atburði á þann veg að hann hafi verið meðal þeirra sem eltur var af mönnum
Þorvalds. Fyrri hluti vísunnar er á þessa leið:
Oss hefir elta víða
eyðir böðvar skíða,
margr spyr seint hið sanna,
sveit hræðum vér manna.
Jónssynir leituðu á náðir Sturlu Sighvatssonar eftir þessar harkfarir fyrir
Þorvaldi, en Þorvaldur réðst gegn Hrafnssonum. Þeim barst njósn og höfðu
fjölmenni fyrir þegar Þorvald bar að garði og var sættum komið á. ‘En er
Hrafnssynir gengu til festu við Þorvald stóðu þeir Oddur Álason og Aron
Hjörleifsson uppi undir virkinu og töluðu og vildu eigi ganga til festu við
Þorvald. Það vildi Þorvaldur síðan virða til fjörráða við Odd’.20
Sturla Sighvatsson lét sækja Aron Hjörleifsson til sektar eftir Grímseyjar-
för. Hann var hér og hvar í leynum og ‘jafnan á Geirþjófsfjarðareyri með
litlum bónda er Þórarinn hét’.21 Sturla Sighvatsson sendi menn vestur til að
njósna um hann sumarið 1224, en þeir höfðu ekki erindi sem erfiði, og tveir
ókunnugir menn, Sigurður og Egill, urðu til að veita Aroni liðveislu, en hann
hafði dreymt um nóttina að Guðmundur biskup legði yfir hann skikkju sína.
Eftir þann atburð flúði hann suður yfir Breiðafjörð og var löngum í nágrenni
við ríki Sturlu Sighvatssonar sem gerði ítrekaðar tilraunir til að ráða hann af
dögum, en Aron bjargaðist undan og sýndi oft frábæra hreysti. Sumarið
1225 komst hann suður í Odda til Haralds Sæmundssonar og var hann þar í
skoti um stund. Haraldur kom Aroni utan.22
Árið 1223 stofnuðu Sturla Sighvatsson og Þorvaldur Vatnsfirðingur til
vináttu, en á alþingi sama ár lét Snorri Sturluson lýsa hernaðarsök á hendur
Þorvaldi og varð hann á þinginu sekur skógarmaður og sekt fé hans allt og
goðorð. Fyrir tilstilli Sighvats Sturlusonar tók málið brátt aðra stefnu. Snorri
19 Sturlunga I, 282.
20 Sturlunga I, 284.
21 Sturlunga 1,290-91.
22 Sturlunga I, 294.