Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 119
Var Sturla Bárðarson höfundur Gísla sögu
117
annarri. Gísli og Aron eru báðir dæmdir skógarmenn vegna víga. Þeir
dveljast í Geirþjófsfirði í útlegðinni, sáttaboð misheppnast, báðir fara
kringum land á flótta undan óvinum sínum og er flótti Arons eðlilegri en
ferðalag Gísla. Þá eru sendir njósnarmenn og flugumenn án árangurs.
Fimmtán manna flokkur fer að útlögunum, sem hafa einn liðsmann - Aron
Hafþór, Gísli Ingjald. Förunautar útlaganna eru vegnir, en þeir bjargast
sárir á kálfa af spjóti. Tófa á Höfða og Refur á Haugi veita útlögunum
viðtöku. Þá eru báðir útlagarnir hagir og gera við bát eða smíða skip og báðir
láta skip reka til að villa um fyrir óvinunum. Þá er boðskapur í draumum
útlaganna áþekkur. Dr. Björn K. Þórólfsson komst svo að orði í formála
sínum að Gísla sögu að óskiljanlegt megi teljast, hvers vegna Gísli settist að
í Geirþjófsfirði í nágrenni við Eyjólf gráa.31 Gæti skýringin ekki verið sú að
höfundur hafi verið svo háður fyrirmynd sinni að hann hafi ekki gætt
raunsæis sem skyldi?
Ári síðar en þessi grein leit dagsins ljós í Skírni birti Rolf Heller grein um
sama efni sem bar heitið Aron Hjörleifssohn und Gisli Surssohn32 og tilfærði
sum sömu eða áþekk dæmi og voru í Skírni árið áður án þess að þekkja til
hennar. Hins vegar vitnar hann til ritgerðar Peter Footes þremur árum áður
og kynni því að hafa sótt hugmyndina að rannsókninni þangað.
Hér hefir verið dregin löng nót í þeim tilgangi að kanna hvort eitthvað
mæli því í gegn að Sturla Bárðarson sé höfundur Gísla sögu. Við tveimur
veigamiklum atriðum mun reynast erfitt að greiða fullnægjandi svör:
Hvenær var Gísla saga rituð og var Sturla Bárðarson svo lengi ofar moldu að
honum entist líf og heilsa til að vinna það verk? Við þetta má því bæta að
engar haldbærar heimildir eru fyrir því að hann hafi lagt stund á ritstörf og
líklegt að finna megi ýmsa aðra sem komið geti til greina jafnt og hann. Enn
fremur geta þeir sem lesa Sturlungu með athygli velt því fyrir sér hvers konar
maður Sturla Bárðarson var og hvort Gísla saga sé líkleg til að vera hugverk
hans?
Sú vitneskja sem fest hefir verið á bókfell um Sturlu Bárðarson er að hann
var af höfðingjaættum, faðir hans prestur og hann tekið djáknavígslu. Með
öðrum orðum hlotið þá menntun sem höfðingjasynir fengu á Sturlungaöld.
Lesandinn hittir hann fyrst í flokki Guðmundar góða eftir að hann hefir
tekið djáknavígslu. Hins vegar er ekki vitað hvort hann var þar fyrir
frændsemis sakir eða af trúarástæðum. Þá er ljóst að Sturla Bárðarson kunni
sitthvað fyrir sér í lögum þegar hann reið til alþingis og flutti mál fyrir
Hrafn. Einnig má berlega ráða að hann hafi verið hraustur og harðfengur.
Hann er í fylgd með Hrafni þegar allra veðra var von í samskiptum við
Þorvald Vatnsfirðing. Þeir bræður, hann og Pétur, fóru upp á sitt eindæmi til
Súðavíkur og tóku þar bónda sem sekur hafði orðið vegna hvalmálsins og
fluttu að Eyri til Hrafns. Af Sturlungu má berlega skilja að þeir hafi verið
31 íslenzk fornrit VI, Björn K. Þórólfsson og Guðni Jónsson gáfu út. Reykjavík 1943, xi
32 Arkiv för nordisk filologi (86)1966, 57-63.