Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 120
118
Aðalgeir Kristjánsson
herskárri og harðskeyttari í andstöðu sinni við Þorvald en Hrafn kaus. Því til
sönnunar er sú staðreynd að Þorvaldur lét fóthöggva Sturlu um leið og
Hrafn var veginn. Pétri bróður Sturlu voru einnig dæmdar bætur fyrir
fjörráð. Engu að síður greip hann tvívegis til vopna og vó í fyrra skiptið einn
mann en í hið síðara lét hann drepa einn og fóthöggva annan. Af þessu má
ráða að þeir bræður voru miklir hefnendur þegar tækifæri gáfust. Það kom
skýrt í ljós þegar Sturla Bárðarson var með Jónssonum í aðförinni að
Þorvaldi Vatnsfirðingi þó að honum auðnaðist ekki að eiga hlutdeild að því
að ná lífi hans.
En lesandinn kynnist einnig öðrum fleti á Sturlu Bárðarsyni. Hann er
skáldmæltur og þrjár vísur dróttkvæðar hafa varðveist eftir hann. Ein þeirra
- ‘Oss hefir elta víða’ - er runhenda tekin af dróttkvæðum hætti. Það er sami
bragarháttur og á 21. vísu Gísla sögu sögu Súrssonar - ‘Eigi verðr, en orða’ -
sem samkvæmt tímatali sögunnar ætti að vera ort laust fyrir 975. Skáldatal
nefnir Sturlu Bárðarson eins og Snorra Sturluson meðal hirðskálda Skúla
hertoga Bárðarsonar. Um hirðkveðskap hans er ekkert vitað, en líkur eru á
að hann hafi siglt til Noregs og farið á fund hertogans og flutt honum
kvæðið svo sem venja var, en ekkert er hægt að fullyrða í því efni. I fjórum
síðustu braglínunum sem geymst hafa kynnist lesandinn raunsæi hans og
djúpum skilningi á mannlegu eðli og hvað veraldargengi er fallvalt.
Þegar litið er til ættmenna hans má greina næsta ólíka eðlisþætti. E. t. v.
sótti hann til afa síns og nafna að hafa áhuga á lögum og málatilbúnaði. Ari
Þorgeirsson, ömmubróðir Sturlu, var hinn mesti fullhugi, en Guðmundur
biskup, sonur hans, öfgamaður í trúmálum. Ekki má gleyma móðurbræðrum
hans og hæfileikum þeirra. Þórður, Sighvatur og Snorri voru ólíkir um
margt, en ýmislegt bendir til að Sturlu Bárðarsyni hafi kippt í það kyn.
Það er alkunna að alvarleg áföll breyta lífsviðhorfi manna og nauðugir
viljugir geta menn ekki haldið áfram fyrri stefnu í lífinu. Guðmundur biskup
Arason, frændi Sturlu Bárðarsonar, fótbrotnaði á unga aldri og er talið að sú
lífsreynsla hafi valdið straumhvörfum í lífi hans. Ekki þarf að hafa mörg orð
um að örkuml þau sem Sturla Bárðarson hlaut af völdum Þorvalds
Vatnsfirðings skiptu sköpum fyrir hann. Honum varð óhægara en áður að
standa í harðræðum og vígaferlum þó að hefndarhugurinn í garð Vatns-
firðinga væri að sama skapi meiri. Auðvelt er að geta sér þess til hvernig
honum hafí verið innanbrjósts þegar hann sá hve auðveldlega Snorri Sturlu-
son söðlaði um og snerist til vináttu og mægða við Þorvald Vatnsfirðing,
höfuðóvin Sturlu Bárðarsonar. Þá sá hann gleggst hvað vinátta höfðingja var
ótrygg og breytileg og háð því einu hvernig byrinn blés í hvert sinn.
Sturla Bárðarson dvaldist langdvölum meðal helstu höfðingja á Vestur-
landi og þeirra sem best voru menntir og mestir andans menn. Öruggt má
telja að hann hafi verið mjög handgenginn Hrafni Sveinbjarnarsyni, hvort
heldur þegar um var að ræða að flytja mál á alþingi fyrir hann eða fylgja
honum til samninga og sáttagerðar við Þorvald Vatnsfirðing. Af frásögn